27.04.2016
Eins og undanfarin ár stendur UFA fyrir 1. maí hlaupi á Akureyri. Þrjár vegalengdir verða í boði, 5 km hlaup með tímatöku, 2 km krakkahlaup og 400 m leikskólahlaup.
Hlaupið er keppni á milli grunnskóla þar sem keppt er um hlutfallslega þátttöku og sá skóli sem sigrar hlýtur veglegan bikar. Í skólakeppninni geta krakkarnir valið um að hlaupa 2 eða 5 km og er 5 km hlaupið er einnig opið öðrum keppendum.
Keppni hefst kl. 12:00 í krakkahlaupinu en 12:45 í 5 km - en athugið að skráningu lýkur kl. 11:00.
Lesa meira
24.04.2016
Miðvikudaginn 20. apríl var haldin upplestrarhátíð á sal Brekkuskóla. Nemendur í 4. bekk fögnuðu því að hafa tekið þátt í Litlu upplestrarkeppninni sem hófst formlega á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2015. Nemendur hafa verið duglegir að æfa upplestur í allan vetur og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar.
Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa að betri árangri, ekki að keppa við bekkjarfélagana heldur sjálfan sig og stefna stöðugt að því að bæta framsögn og upplestur, að flytja móðurmálið sjálfum sér og öðrum til ánægju.
Lesa meira
18.04.2016
Skólaárið 2016-2017 geta nemendur valið úr fjölmörgum greinum. Markmiðið var að bjóða uppá fjölbreytt úrval valmöguleika og von okkar er sú að allir geti fundið sér áhugaverðar og spennandi greinar. Valgreinar eru sumar sameiginlegar fyrir 8. - 10. bekk en aðrar einungis fyrir 9. og 10. bekk. Almennt samsvarar hver grein 2 kennslustundum á viku yfir veturinn en nú eru langflestar innanskólagreinarnar kenndar hálfan vetur hver og því þarf að velja sérstaklega fyrir haustönn annarsvegar og vorönn hinsvegar. Skipti milli greina eru um miðjan janúar 2017. Flestar samvalsgreinarnar eru kenndar allan veturinn hver grein. Þær eru kenndar í grunnskólum bæjarins og fleiri stöðum. Fimm greinar eru kenndar í VMA fyrir nemendur í 9. og 10. bekk, fjórar eru hálfs árs greinar og ein heilsárs.
Reiknað er með að nemendur geti nýtt sér strætisvagnakerfi bæjarins til að komast milli staða. Fyrirvari er gerður um að greinar geta fallið niður vegna lítillar þátttöku eða annarra ófyrirsjánlegra orsaka. Einnig getur komið fyrir að fleiri sækja í greinar en hægt er að koma að.
Nánari upplýsingar eru í kynningarritum og á umsóknarblöðum sem skila þarf í síðasta lagi mánudaginn 25. apríl nk. Einnig er velkomið að hafa samband við Steinunni Hörpu, náms- og starfsráðgjafa, netfang steinunnh@akmennt.is
Kynningarbæklingur 8. bekkur
Kynningarbæklingur 9. og 10. bekkurUmsókn 8. bekkurUmsókn 9. og 10. bekkurList- og verkgreinar
Lesa meira
06.04.2016
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekkjum grunnskólanna á
Akureyri fór fram í Menntaskólanum á Akureyri 6. apríl 2016.
Aðallesarar Brekkuskóla voru þau Saga Margrét Sigurðardóttir
og Kári Hólmgrímsson. Varamenn voru þau Hildur Þóra Jónsdóttir og Kári Þór
Barry. Það er skemmst frá því að segja að Kári Hólmgrímsson var valinn af
dómnefnd í 1. sæti keppninnar. Keppendur stóðu sig allir með stakri prýði og
var unun að hlusta á svo góðan upplestur. Það er ljóst að markmiðum Stóru upplestrarkeppninnar hefur verið náð en
þau eru m.a. að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum,
vandaðan upplestur og framburð, og fá alla nemendur til að lesa upp, sjálfum
sér og öðrum til ánægju.
Starfsfólk Brekkuskóla óskar Kára og 7. bekk öllum
til hamingju með árangurinn!
Lesa meira
04.04.2016
Síðan 1967 hefur Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar verið
haldinn hátíðlegur, í kringum 2. apríl sem er fæðingardagur H.C. Andersen. Hann
er haldinn hátíðlegur til að vekja athygli á barnabókum og kærleika sem fylgir
lestri. Eins og undanfarin ár færir IBBY á Íslandi íslenskum börnum smásögu að
gjöf í tilefni dagsins. Sagan í ár heitir Andvaka og er eftir þær Birgittu
Elínu Hassell og Mörtu Hlín Magnadóttur, höfunda Rökkurhæða.
Hér er slóð á söguna sem verður flutt 5. apríl 2016 kl.
9:10 á Rás 1:
http://ibby.is/dagur-barnabokarinnar-2016/
Lesa meira
31.03.2016
Alþjóðlegur dagur einhverfunnar er á næsta leiti og föstudaginn 1.apríl næstkomandi hvetjum við alla til að klæðast bláu og vekja þannig athygli á málefnum einhverfra barna en blái liturinn hefur fest sig í sessi sem litur einhverfunnar um heim allan. Líkt og undanfarin ár er það BLÁR APRÍL Styrktarfélag barna með einhverfu, sem stendur fyrir deginum. Markmið bláa dagsins er að vekja athygli á einhverfu og fá landsmenn alla til að sýna einhverfum stuðning sinn. Með aukinni vitund og þekkingu á einhverfu byggjum við upp samfélag sem er betur í stakk búið til að skilja þarfir einhverfra og virða framlag þeirra til samfélagsins. Stöndum saman og fögnum fjölbreytileikanum því lífið er blátt á mismunandi hátt!
Lesa meira
13.03.2016
Næstu daga munu nemendur gera sér glaðan dag og taka þátt í
árlegu páskabingói. Páskaleyfi hefst að
afloknum skóladegi föstudaginn 18. mars 2016. Mæting
nemenda eftir páskaleyfi er miðvikudaginn 30. mars samkvæmt stundaskrá. Starfsfólk Brekkuskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra ánægjulegra daga.
Lesa meira
04.03.2016
Nemendaráðið stendur fyrir þemaviku 7. - 11. mars. Eins og sjá má á þessari auglýsingu sem nemendur gerðu verður margt í boði. Á mánudag verður búningadagur. Á þriðjudag verður Fancy dagur eða sparifatadagur. Á miðvikudag verður litadagur sem skiptist eftir stigum: Elsta stig verður í bláum fötum, miðstig í rauðum fötum og yngsta stig i gulum fötum. Á fimmtudaginn mega stelpur klæðast strákafötum og strákar stelpufötum, sem gefur tilefni til að ræða það hvort það eru til sérstök stelpuföt og strákaföt. Á föstudaginn verður náttfatadagur.
Lesa meira
25.02.2016
Fimmtudaginn. 3. mars er
áformaður útivistardagur í Brekkuskóla (ef veður leyfir) þar sem okkur býðst að
fara í Hlíðarfjall. Þeim nemendum sem
ekki geta farið í fjallið af heilsufars- eða öðrum mjög brýnum ástæðum verður
boðið upp á afþreyingu í skólanum.
Nemendur í 4.-10. bekk geta
fengið lánaðan búnað endurgjaldslaust en nemendur í 1.-3. bekk geta því miður
ekki fengið lánaðan búnað en er velkomið að hafa með sinn eigin búnað eða
snjóþotur og sleða. Unnið er að því að
kanna þörf fyrir búnað fyrir nemendur og þurfum við að senda þær upplýsingar
upp í fjall á þriðjudaginn. Hægt verður
að fara á svigskíði, bretti, gönguskíði. 8.-10. bekk er boðið að taka þátt í
gönguferð í stað þess að fara á skíði/bretti. Þá er gengið niður úr fjallinu og farið í pottinn á
eftir. Umsjónarkennarar þurfa að halda utan um skráningu þeirra sem ætla í
göngu.
Nemendur fá lyftukort sem gilda
allan daginn og geta eldri nemendur nýtt sér það ef vilji er til, en athugið að
skila þarf inn lánsbúnaði um hádegi, þegar rútur á vegum skólans fara heim. Ef nemendur óska eftir að verða
eftir í fjallinu þegar dagskrá lýkur þurfa foreldrar að hafa óskað eftir því
við umsjónarkennara eða ritara skólans með símtali eða tölvupósti. Athugið að
nemendur eru þá á eigin vegum eftir að rútur skólans eru farnar.Þegar nemendur koma til baka í
skólann fá þeir hádegisverð, yngstu nemendurnir fara í eina kennslustund en
fara að því búnu heim (eða í Frístund ef þeir eru skráðir þar). Áætlaða
heimferðartíma má sjá hér á eftir:
Tímasetningar:
Nemendur mæta í stofur klukkan 8 samkvæmt stundaskrá þar sem
merkt verður við þá.
Farið verður frá skólanum sem hér segir:
8. 10. bekkur kl.
08:15
4. 7. bekkur kl.
08:45
1. 3. bekkur kl.
09:15
Lagt verður af stað
úr Hlíðarfjalli sem hér segir:
1. 3. bekkur kl.
11:30
4. 7. bekkur kl.
12: 00
8. 10. bekkur kl.
12:30
ATHUGIÐ! Nemendur þurfa að koma með til umsjónarkennara
skriflegt leyfi að heiman ef þeir ætla að vera lengur en heimferð segir til um
uppi í fjalli ( í boði fyrir 6. 10. bekk). Nemendur þurfa þá að koma sér heim
í samráði við foreldra sína. Þegar komið er í skóla aftur verður matur í matsal og eftir
það fara nemendur heim eða í Frístund. Nemendur í 1-3. bekk byrja á að borða þegar þeir koma úr fjallinu, fara
síðan í sínar stofur þar sem skólaliðar fylgjast með þeim þangað til kennarar
taka við þeim og eru með nemendum til 13:10.
Útbúnaður:
Skíði, bretti,
snjóþotur, þoturassar, svartir plastpokar og sleðar eru leyfðir til fararinnar.
Hjálmar eru
nauðsynlegir! (Bent er á að hægt er að nota reiðhjólahjálma)
Mikilvægt er að nemendur séu vel klæddir og í vel
merktum fatnaði.
Ekki gleyma
snjóbuxunum, vettlingunum og húfunni.
Nesti: nemendur komi sjálfir með hollt og gott
nesti. Sjoppa er ekki opin.
Lesa meira
19.02.2016
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur, að fenginni tillögu frá
Menntamálastofnun, ákveðið að breyta fyrirkomulagi lögbundinna samræmdra
könnunarprófa í grunnskólum. Breytingin er tvenns konar.
Í fyrsta lagi hefur verið ákveðið að öll samræmd könnunarpróf verði lögð fyrir með rafrænum hætti frá og með haustinu 2016.
Í öðru lagi hefur verið ákveðið að samræmd könnunarpróf sem
undanfarin ár hafa verið haldin að hausti í 10. bekk færist til vors í
9. bekk. Því verður ekkert próf haldið í 10. bekk haustið 2016 en þeir
sem verða í 10. bekk á næsta skólaári munu þreyta próf vorið 2017 á sama
tíma 9. bekkingar.
Með því að gera prófin rafræn gefst kostur á fjölbreyttari leiðum við
að prófa markmið skólastarfs, stytta vinnslutíma miðlægra prófa, bjóða
upp á sveigjanleika í fyrirlögn, auðvelda stuðningsúrræði fyrir nemendur
með sérþarfir og gefa kost á að laga próffyrirlögn að hæfni nemenda.
Með því að færa 10. bekkjar könnunarprófið í 9. bekk gefst nemendum,
forráðamönnum þeirra og kennurum meira svigrúm til þess að nýta sér
niðurstöðurnar til að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk.
Jafnframt þessum breytingum gerir Menntamálastofnun könnunarprófin
hæfnimiðaðri í takt við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013.
Miðað er við að áfram verði tvö könnunarpróf í 4. og 7. bekk, þ.e. í
íslensku og stærðfræði. Í 10. bekk verður metin hæfni í íslensku,
stærðfræði og ensku.
Menntamálastofnun mun á næstunni kynna betur breytt fyrirkomulag
lögbundinna samræmdra könnunarprófa og gefa út dagsetningar á fyrirlögn
þeirra á næsta skólaári.
Samkvæmt ákvæðum í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla er
foreldrum heimilt að óska eftir því að barn þeirra sé útskrifað úr
grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið. Í aðalnámskránni eru
sett viðmið um verklag og forsendur við mat á slíkum óskum. Með því að
færa samræmt könnunarpróf til vorannar í 9. bekk fá foreldrar, nemendur
og skólar viðbótarupplýsingar til að meta hvort viðkomandi nemandi búi
yfir nægilegri hæfni og geti því innritast í framhaldsskóla.
Lesa meira