Uppbygging

Brekkuskóli vinnur eftir agastjórnunarkerfi Uppbyggingastefnunnar, stefnan er í stöðugri þróun  og er ríkur þáttur í skólastarfinu í Brekkuskóla. Helstu upplýsingar um stefnuna má nálgast hér fyrir neðan.

Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga (Restitution - Self Discipline) er eins og nafnið bendir til, aðferð við að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga.

Nemendur læra:

  • Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir, stunda sjálfsrannsókn
  • Að rækta og efla sinn innri áhuga
  • Að bera ábyrgð á eigin námi
  • Að læra leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun
  • Aðferðir við lausn ágreiningsefna
  • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum (Að taka vonbrigði sín ekki út á öðrum eða leggja aðra í einelti)
  • Að mynda tengsl við aðra
  • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau
  • Að verða þeir sjálfir - þær manneskjur sem þeir vilja vera
  • Að gera bekkjarsáttmála

Diane Gossen frá Kanada er höfundur aðferðarinnar og hefur hún unnið með kennurum víða um heim í rúm tuttugu ár, einkum þó í Kanada og Bandaríkjunum, við að þróa hagnýtar leiðir fyrir skóla sem miða að því að ná þessu marki með því að hinir fullorðnu í skólanum byrja á sjálfum sér við að skapa samheldinn og umhyggjusaman skólabrag.

Eins og að ofan greinir er aðferð Diane fyrst og fremst miðuð við skólana. Margir hafa þó bent á að allir vinnustaðir geti notað aðferðirnar með litlum breytingum og víst er að allir sem vinna með börnum og unglingum ásamt foreldrum geta lært og notað þessar hugmyndir og aðferðir.

Uppbyggingarstefnan er langtíma verkefni þar sem starfsfólk í skóla ákveður leið til að láta skólastarfið ganga betur með þá vitneskju að leiðarljósi að hver og einn geti aðeins stjórnað sjálfum sér og ekki öðrum. Þetta veldur grundvallarbreytingu á hugsun margra um aðferðir við stjórnun og meðferð agamála - breyting verður á kenniviðmiðum (paradigm) skólasamfélagsins varðandi samskipti, aga og reglu.

Áherslubreytingar í samskiptum

  • Frá þvingandi samskiptum í að útrýma þvingun og ótta
  • Frá atferlismótun til sjálfstjórnar
  • Frá fyrirskipun til samvinnu
  • Frá blindri hlýðni til sjálfsaga
  • Frá áherslu á vandamál til áherslu á lausnir
  • Frá því að kennarinn leysir vandann í að nemendur leysa vandann
  • Frá undanlátssemi til ábyrgðar
  • Frá reglum til lífsgilda
  • Frá: "Hvernig getum við látið þau lúta okkar vilja?" í  "Hvernig getum við kennt þeim að sinna þörfum sínum af ábyrgð?"  

Rætur aðferða Diane Gossen liggja víða, bæði í traustum vísindalegum kenningum um eðli mannlegrar hegðunar og í ýmsum rannsóknum á þeim. Í fyrsta lagi hefur hún þróað aðferðir sínar út frá hugmyndum dr. William Glasser um gæðaskólann (Quality School) og sjálfsstjórnarkenningu hans (Control Theory/Choice Theory). Hún lærði hjá Glasser og starfaði hjá stofnun hans í tuttugu ár.Í öðru lagi nefnir Gossen rannsóknir um heilastarfsemi og styðst við hugmyndir Eric Jensen (Teaching with the Brain in Mind) um mælanleg neikvæð áhrif ógnunar á námsgetu. Í þriðja lagi styðja rannsóknir Alfie Kohn aðferðir hennar. Kohn hefur rannsakað neikvæð áhrif umbunarkerfa til að stjórna öðrum á andlegan þroska þess sem fyrir verður (Punished by Rewards). Síðast en ekki síst koma rannsóknir á gömlum aðferðum frumbyggja Ameríku við barnauppeldi og enduruppeldi brotamanna.

Þau kenniviðmið (Control Theory) sem hún byggir á eru þess vegna önnur en kenniviðmið atferlisfræðinnar (behaviorism) um sýnileg tengsl áreitis og viðbragðs. Það er nauðsynlegt að átta sig á muninum áður en farið er að reyna að nýta aðferðirnar. Upplifun viðhorfsbreytingarinnar megi líkja við þá reynslu þegar maður fer að skynja snúning jarðar um sjálfa sig með því að horfa í upp í stjörnuhimininn og skynjar af hverju pólstjarnan er alltaf í norðri. Því má segja að aðferð Diane sé í andstöðu við áherslur atferlissinna á að stjórna einkum með umbunum. Þó er öllu heldur um að ræða viðbót við skilning þeirra á hegðun því hún hafnar ekki alfarið ytri stýringu og gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt er fyrir kennara og uppalendur að þekkja það sem atferlissinninn gerir. Vegna annarra viðhorfa og skilnings á hegðun, beitir hún ytri stýringu hins vegar á annan hátt og hefur aðeins til vara, ef tilraun til uppbyggingar bregst.

Þegar kennari neyðist til að nota ytri stýringu er það ekki með gylliboðum heldur með því að benda á hinn ytri veruleika um ófrávíkjanlegar reglur og óásættanlega hegðun. Þá er notuð svonefnd reglufesta sem byggist á að spyrja um reglur sem skólinn hefur sett og hlutverk barnsins í skólanum. Viðurlögum er hægt að beita, en þau eru einhvers konar frelsisskerðing, því skólinn setur upp skýr þolmörk um óásættanlega hegðun og þróar samstilltar leiðir til að fylgja þeim eftir.

Skýru mörkin skapa það öryggi og traust sem er nauðsynlegt skólasamfélaginu til að standast utanaðkomandi ásóknir. Þau eru til að styðja við þau lífsgildi og þá sannfæringu sem hver bekkur og allur skólinn setur saman í félagslegan sáttmála. Að framfylgja skýrum þolmörkum er því hvorki hugsað sem refsingskilyrðing til að hræða menn til hlýðni við reglur, heldur er það yfirlýsing um að leiðin sem barnið valdi er lokuð og nauðsynlegt að taka af því ráðin.  
Í beinu framhaldi er barninu opnuð önnur leið, tækifæri til að læra betri samskipti og byggja þannig upp sinn innri styrk. Þetta er uppbygging sjálfsaga.