Öryggismál

Í öllum kennslustofum skólans er að finna teikningar af skólanum þar sem sýndar eru útgönguleiðir ef yfirgefa þarf húsnæðið í skyndi. Yfirumsjón með öryggismálum í skólanum hefur ásamt skólastjórnendum, öryggisnefnd sem er skipuð tveimur öryggistrúnaðarmönnum ásamt umsjónarmanni skólahúsnæðisins. Nefndin vinnur í nánu samstarfi við slökkvilið og aðra þá aðila sem koma að öryggismálum almennt. Nefndin sér um í samvinnu við slökkviliðið að skipuleggja og hafa yfirumsjón með æfingum sem miða að því að rýma skólann á sem fljótlegastan og öruggastan máta og sjá til þess að starfsmenn vinni samkvæmt fyrirframgerðum áætlunum.

Flestir starfsmenn skólans hafa lokið námskeiði í skyndihjálp og stefnt er að því að allir ljúki slíku námskeiði og séu því reiðubúnir að takast á við margvíslegan vanda sem gæti steðjað að.

Öryggistrúnaðarmenn: Kári Ellertsson, Sólrún Eyfjörð Torfadóttir og Rúnar Már Þráinsson til vara.

Óveður / Ófærð

Skólahaldi er alla jafna ekki aflýst nema í verstu veðrum og þá gjarnan í öllum skólum bæjarins. Slíkt er ávallt auglýst í útvarpi. Skelli á vont veður meðan börnin eru í skólanum eru foreldrar beðnir um að sjá til þess að þau verði sótt eins fljótt og auðið er eftir að skóla lýkur.

Viðbrögð í grunnskólum þegar tvísýnt er um færð og veður

1.       Meginreglan er sú að leik- og grunnskólar eru opnir nema lögregla gefi út tilmæli um að fólk sé ekki á ferli. 

2.      Ef skólahald fellur niður þá sendir skóladeild tilkynningu þess efnis á RÚV og Bylgjuna fyrir kl. 7.00 að morgni.

3.       Öllum skólum ber að setja tilkynningu á heimasíðu í þeim tilfellum sem tvísýnt er með veður og færð eða þegar skólahald er fellt niður. Einnig skulu skólar senda út póst í Mentor með sömu tilkynningu.

4.       Við tvísýnar aðstæður sem geta verið breytilegar eftir bæjarhlutum þá er það ávallt foreldra/ forráðamanna að meta hvort þeir treysti börnum sínum í skóla.

5.       Ef skólahaldi er ekki aflýst er tryggt að starfsfólk sé til staðar á auglýstum skólatíma í öllum skólum. Börn sem koma í skólann eru ekki send heim áður en skólatíma lýkur.

Neyðarkort

Til að auðvelda starfsfólki skólans að ná til foreldra eða forráðamanna nemenda ef eittthvað fer úrskeiðis hefur skólinn útbúið svokölluð neyðarkort.  Á þessum kortum kemur fram hverja má hringja í ef ekki næst í foreldra. Einnig óskum við eftir því að fram komi á kortunum hvort barnið er með einhverja þá sjúkdóma sem taka þarf tillit til og fleira því um líkt. Augljóslega er mikilvægt að neyðarkortin séu ávallt með réttum upplýsingum. Því eru foreldrar hvattir til að láta skólann vita ef eitthvað breytist, s.s. vinnutími,  símanúmer og annað.

Ef nemandi slasast í skólanum er séð um að hann fái viðeigandi fyrstu hjálp en að öðru leiti þurfa foreldrar að sjá um læknisþjónustu ef þörf er á. Bærinn greiðir allan kostnað sem hlýst af fyrstu ferð nemenda á slysastofu, þurfi þeir þangað úr skóla vegna meiðsla sem þeir hafa orðið fyrir í skólanum.