Viðbragðsferli

Ef grunur leikur á einelti er það skýr stefna Brekkuskóla að tekið sé á málinu strax. Æskilegt er að vitneskja um einelti berist fyrst til umsjónarkennara. Einnig er hægt að hafa samband við námsráðgjafa, deildarstjóra, hjúkrunarfræðing eða stjórnendur. Umsjónarkennari og/eða sá starfsmaður sem fær vitneskju um einelti skal taka á málinu strax. Umsjónarkennara ber að hafa strax samband við einhvern úr eineltisteymi skólans sem hefur samráð um viðbrögð og aðgerðir. Eineltismál eru mismunandi og fer vinna hvers máls eftir eðli þess. Aðgerðir skulu taka mið af hvort um grun eða sannanlegt einelti er að ræða. Einnig þarf að meta hvort um hættulegar aðstæður er að ræða.

1. Grunur um einelti

  • fylgjast betur með og skrá athugasemdir varðandi líðan og hegðun nemanda í kennslustundum og frímínútum
  • spyrjast fyrir meðal samstarfsfólks og nemenda
  • fá nemendur til að tjá sig, munnlega eða skriflega, hvað þeim finnst um líðan og bekkjaranda
  • ræða við nemendur
  • eftirfylgd s.s. reglulegir fundir/viðtöl með málsaðilum
  • gera tengslakönnun í bekknum
  • hafa samráð og leita upplýsinga hjá forráðamönnum
  • ef um rafrænt einelti er að ræða er forráðamönnum bent á að geyma þau gögn sem fram hafa komið og jafnvel að framvísa þeim til lögreglu

Þegar nægar upplýsingar eru fyrir hendi þarf að ákveða hvort þörf sé á frekari aðgerðum eða leggja málið til hliðar.

2. Einelti á sér sannanlega stað
Ef ljóst er að einelti hefur átt sér stað þarf að skipuleggja einstaklingsbundin viðtöl við þolendur og gerendur.
Ef grunur leikur á að um alvarlegt einelti sé að ræða er mikilvægt að tveir aðilar taki viðtal við gerendur. Það undirstrikar alvöru málsins og getur komið í veg fyrir misskilning. Í öllum tilvikum er gerendum gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið og að skólinn muni með öllum ráðum tryggja að eineltinu ljúki.
Hafa þarf í huga:

  • samstarf við forráðamenn
  • þátttöku forráðamanna í meðferð málsins
  • hvaða stuðning skólinn getur veitt þolendum og gerendum
  • vernd gegn frekara áreiti
  • ákveðniþjálfun fyrir þolendur eineltis
  • bekkjarvinnu ef við á
  • upplýsa skólasamfélagið
  • skráningu/tilkynningu skal skrá í eineltisbók. Umsjónarkennari kemur öllum sínum málum til eineltisteymis með því að tilkynna nafn til skólastjórnanda og gerir um leið grein fyrir málinu.
  • breyta þarf hegðun gerenda og byggja þá upp á jákvæðan hátt

3. Einelti heldur áfram
Ef aðgerðir bera ekki árangur þarf að fylgja málinu frekar eftir og hafa í huga:

  • frekari samvinnu og samráð við forráðamenn þolenda og gerenda
  • meira eftirlit
  • að brjóta upp gerendahóp
  • einstaklingsmiðaða atferlismótun
  • ráðgjöf hjá sálfræðingi/öðrum sérfræðingum 
  • að leita til barnaverndar
  • að leita til fagráðs eineltismála í grunn- og framhaldsskólum
  • tilkynningu til Fræðslusviðs  Akureyrarbæjar
  • tilkynningu til lögreglu

 4. Tilkynningar/skráning
Halda skal skrá yfir öll eineltismál sem upp koma og vinnslu þeirra. Skráningin er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum.