Stefna skólans
Stefna Brekkuskóla er að vinna að því í samstarfi við heimilin að búa nemendur undir líf og starf, að hjálpa þeim að finna og nýta hæfileika sína og stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði þeirra. Stefna skólans tekur tillit til mannréttinda samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna frá árinu 1989.
Hlutverk skólans
Hlutverk grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Þetta sameiginlega verkefni kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu.
Markmið
- Að Brekkuskóli verði ætíð framúrskarandi skóli.
- Að skólinn bjóði upp á vandað nám við hæfi hvers og eins.
- Að nemendum líði vel í skólanum.
- Að efla samhug og samstarf heimila og skóla í þágu nemenda.
- Að stuðla að virku upplýsingaflæði milli skóla og heimila.
Fjármál Að skólinn hafi á hverjum tíma úr nægum fjármunum að spila til að sinna hlutverki sínu af krafti. Að rekstur sé í samræmi við fjárhagsáætlun hvers árs og sem hagkvæmastur.
Innra starf
- Að Brekkuskóli vinni samkvæmt Uppbyggingarstefnu og taki þátt í áætlun Olweusar gegn einelti.
- Að skólanámskrá uppfylli ætíð ströngustu kröfur og sé í sífelldri endurskoðun, allir þættir skólastarfsins stöðugt metnir og þróaðir.
- Að þátttaka foreldra í skólastarfinu sé víðtæk og markviss.
- Að námsárangur nemenda verði framúrskarandi.
- Að kennsluaðferðir séu fjölbreyttar, tekið sé tillit til ólíkra þarfa nemenda og námsumhverfið aðlaðandi.
- Að kenna nemendum að virða náunga sinn og umhverfi.
- Að nemendur sýni samábyrgð og virði jafnan rétt einstaklinga.
- Að nemendur verði meðvitaðir um borgaralegar skyldur sínar og réttindi.
- Að kenna nemendum að bera ábyrgð á gerðum sínum og eigin heilbrigði.
- Að gera nemendur sjálfstæða í námi og starfi, rækta með þeim mannúð og stuðla að félagsþroska þeirra.
- Að verklagsreglur séu ætíð aðgengilegar og í stöðugri endurskoðun.
- Að námshópar verði ætíð af viðráðanlegri stærð.
- Að aðstaða og búnaður í skólanum sé ætíð eins og best verður á kosið.
Starfsmenn
- Að hafa ætíð vel menntaða starfsmenn.
- Að starfsmenn hafi aðgang að símenntun við hæfi.
- Að stöðugleiki sé í starfsmannahaldi.
- Að starfsmenn taki þátt í mótun stefnu og starfi skólans.
- Að starfsmönnum líði vel og séu ánægðir.
- Að starfsmenn séu meðvitaðir um hlutverk sitt og ábyrgð.
- Að starfsmenn sýni frumkvæði og séu opnir fyrir nýjungum.
Áherslur í stefnu skólans
Einkennisorð skólans eru menntun, gleði, umhyggja, framfarir. Lögð er áhersla á að þessi hugtök setji mark sitt á allt starf í skólanum.
- Menntun; Við leggjum metnað í nám og kennslu. Við viljum að námið sé fjölbreytt og skapandi og efli gagnrýna hugsun til uppbyggingar. Öll þurfum við að finna tilgang með vinnu okkar, fá tækifæri til að hafa áhrif og láta ljós okkar skína.
- Gleði; Skólinn er ekki bara undirbúningur undir lífið, heldur hluti af lífinu sjálfu. Því er lögð áhersla á að lífsgleði og starfsgleði setji mark sitt á allt skólastarfið. Til þess að svo megi verða þurfum við að vera örugg og okkur þarf að líða vel á vinnustaðnum.
- Umhyggja; Brekkuskóli er samfélag þar sem við stöndum saman og sýnum umhyggju. Við dæmum ekki og erum tilbúin til að aðstoða hvert annað.
- Framfarir; Allir sem innan skólans starfa stefna að því að þroskast og dafna í námi, starfi og sem persónur og aðstoða aðra við það. Ekki þurfa allir að taka jöfnum framförum heldur er tekið mið af stöðu hvers og eins. Þetta gerum við með því að setja okkur sífellt ný markmið og mæla hvernig okkur tekst að ná þeim. Þannig tekur stofnunin í heild einnig framförum og stefnir ætíð að því að vera skóli sem lærir.
Við leggjum áherslu á sameiginleg gildi í skólasamfélaginu.
Við sýnum öðrum virðingu, kurteisi og tillitsemi
Við erum heiðarleg og umburðarlynd, sýnum ólíkum skoðunum og aðstæðum skilning
Við erum stundvís, iðjusöm og reglusöm
Við ræktum störf okkar af alúð og metnaði
Við erum samábyrg og gætum lýðræðis og réttlætis
Við gætum almennra mannréttinda
Við sýnum góða umgengni
Við leitumst við að taka framförum og hrósum fyrir það sem vel er gert
Við erum hugrökk og áræðin
Við öxlum ábyrgð á mistökum okkar
Við erum umhyggjusöm og reiðubúin til samvinnu og samhjálpar
Við erum glöð - við erum félagar!
- Í Brekkuskóla er í lagi að gera mistök, en við göngumst við mistökum okkar og leitumst við að læra af þeim og bæta fyrir þau eins og best við getum.
- Við höfum skipulagt innra eftirlit og aðhald með skólastarfinu, leggjum áherslu á markmiðssetningar og ígrundun.
- Brekkuskóli er samfélag þar sem við vinnum saman að því að læra, þroskast og taka framförum, erum glöð og berum umhyggju hvert fyrir öðru.
Framtíðarsýn Brekkuskóla
- Brekkuskóli veitir nemendum og foreldrum framúrskarandi þjónustu.
- Námið er sniðið að þörfum hvers og eins nemanda, horft er jöfnum höndum til námslegra og félagslegra markmiða.
- Foreldrar eru virkir þátttakendur í skólastarfinu og vinna með kennurum að námi barna sinna.
- Skólinn og nemendur hans eru í fjölbreyttu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök í bænum og leggja þannig ýmislegt af mörkum til samfélagsins.
- Brekkuskóli er samkomustaður skólasamfélagsins við ýmis tilefni.