Fréttir

Páskar

Næstu daga munu nemendur gera sér glaðan dag og taka þátt í árlegu páskabingói.  Páskaleyfi hefst að afloknum skóladegi föstudaginn 18. mars 2016. Mæting nemenda eftir páskaleyfi er miðvikudaginn 30. mars samkvæmt stundaskrá. Starfsfólk Brekkuskóla óskar nemendum og fjölskyldum þeirra ánægjulegra daga.
Lesa meira

Þemavika 7. - 11. mars 2016

Nemendaráðið stendur fyrir þemaviku 7. - 11. mars.   Eins og sjá má á þessari auglýsingu sem nemendur gerðu verður margt í boði. Á mánudag verður búningadagur. Á þriðjudag verður Fancy dagur eða sparifatadagur.  Á miðvikudag verður litadagur sem skiptist eftir stigum: Elsta stig verður í bláum fötum, miðstig í rauðum fötum og yngsta stig i gulum fötum.   Á fimmtudaginn mega stelpur klæðast strákafötum og strákar stelpufötum, sem gefur tilefni til að ræða það hvort það eru til sérstök stelpuföt og strákaföt.     Á föstudaginn verður náttfatadagur. 
Lesa meira

Útivistardagur 3. mars

Fimmtudaginn. 3. mars er áformaður útivistardagur í Brekkuskóla (ef veður leyfir) þar sem okkur býðst að fara í Hlíðarfjall.  Þeim nemendum sem ekki geta farið í fjallið af heilsufars- eða öðrum mjög brýnum ástæðum verður boðið upp á afþreyingu í skólanum. Nemendur í 4.-10. bekk geta fengið lánaðan búnað endurgjaldslaust en nemendur í 1.-3. bekk geta því miður ekki fengið lánaðan búnað en er velkomið að hafa með sinn eigin búnað eða snjóþotur og sleða.  Unnið er að því að kanna þörf fyrir búnað fyrir nemendur og þurfum við að senda þær upplýsingar upp í fjall á þriðjudaginn.  Hægt verður að fara á svigskíði, bretti, gönguskíði. 8.-10. bekk er boðið að taka þátt í gönguferð í stað þess að fara á skíði/bretti. Þá er  gengið niður úr fjallinu og farið í pottinn á eftir. Umsjónarkennarar þurfa að halda utan um skráningu þeirra sem ætla í göngu. Nemendur fá lyftukort sem gilda allan daginn og geta eldri nemendur nýtt sér það ef vilji er til, en athugið að skila þarf inn lánsbúnaði um hádegi, þegar rútur á vegum skólans fara heim.  Ef nemendur óska eftir að verða eftir í fjallinu þegar dagskrá lýkur þurfa foreldrar að hafa óskað eftir því við umsjónarkennara eða ritara skólans með símtali eða tölvupósti. Athugið að nemendur eru þá á eigin vegum eftir að rútur skólans eru farnar.Þegar nemendur koma til baka í skólann fá þeir hádegisverð, yngstu nemendurnir fara í eina kennslustund en fara að því búnu heim (eða í Frístund ef þeir eru skráðir þar). Áætlaða heimferðartíma má sjá hér á eftir: Tímasetningar: Nemendur mæta í stofur klukkan 8 samkvæmt stundaskrá þar sem merkt verður við þá. Farið verður frá skólanum sem hér segir:  8. – 10. bekkur kl. 08:15  4. – 7. bekkur kl. 08:45  1. – 3. bekkur kl. 09:15   Lagt verður af stað úr Hlíðarfjalli sem hér segir:  1. – 3. bekkur kl. 11:30  4. – 7. bekkur kl. 12: 00  8. – 10. bekkur kl. 12:30 ATHUGIÐ! Nemendur þurfa að koma með til umsjónarkennara skriflegt leyfi að heiman ef þeir ætla að vera lengur en heimferð segir til um uppi í fjalli ( í boði fyrir 6. – 10. bekk). Nemendur þurfa þá að koma sér heim í samráði við foreldra sína.   Þegar komið er í skóla aftur verður matur í matsal og eftir það fara nemendur heim eða í Frístund. Nemendur í 1-3. bekk byrja á að borða þegar þeir koma úr fjallinu, fara síðan í sínar stofur þar sem skólaliðar fylgjast með þeim þangað til kennarar taka við þeim og eru með nemendum til 13:10. Útbúnaður:     Skíði, bretti, snjóþotur, þoturassar, svartir plastpokar og sleðar eru leyfðir til fararinnar.     Hjálmar eru nauðsynlegir! (Bent er á að hægt er að nota reiðhjólahjálma)     Mikilvægt  er að nemendur séu vel klæddir og í vel merktum fatnaði.     Ekki gleyma snjóbuxunum, vettlingunum og húfunni.     Nesti:  nemendur komi sjálfir með hollt og gott nesti. Sjoppa er ekki opin.  
Lesa meira

Breytt fyrirkomulag samræmdra prófa

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur, að fenginni tillögu frá Menntamálastofnun, ákveðið að breyta fyrirkomulagi lögbundinna samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Breytingin er tvenns konar.  Í fyrsta lagi hefur verið ákveðið að öll samræmd könnunarpróf verði lögð fyrir með rafrænum hætti frá og með haustinu 2016. Í öðru lagi hefur verið ákveðið að samræmd könnunarpróf sem undanfarin ár hafa verið haldin að hausti í 10. bekk færist til vors í 9. bekk. Því verður ekkert próf haldið í 10. bekk haustið 2016 en þeir sem verða í 10. bekk á næsta skólaári munu þreyta próf vorið 2017 á sama tíma 9. bekkingar. Með því að gera prófin rafræn gefst kostur á fjölbreyttari leiðum við að prófa markmið skólastarfs, stytta vinnslutíma miðlægra prófa, bjóða upp á sveigjanleika í fyrirlögn, auðvelda stuðningsúrræði fyrir nemendur með sérþarfir og gefa kost á að laga próffyrirlögn að hæfni nemenda. Með því að færa 10. bekkjar könnunarprófið í 9. bekk gefst nemendum, forráðamönnum þeirra og kennurum meira svigrúm til þess að nýta sér niðurstöðurnar til að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk. Jafnframt þessum breytingum gerir Menntamálastofnun könnunarprófin hæfnimiðaðri í takt við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013. Miðað er við að áfram verði tvö könnunarpróf í 4. og 7. bekk, þ.e. í íslensku og stærðfræði. Í 10. bekk verður metin hæfni í íslensku, stærðfræði og ensku. Menntamálastofnun mun á næstunni kynna betur breytt fyrirkomulag lögbundinna samræmdra könnunarprófa og gefa út dagsetningar á fyrirlögn þeirra á næsta skólaári. Samkvæmt ákvæðum í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla er foreldrum heimilt að óska eftir því að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið.  Í aðalnámskránni eru sett viðmið um verklag og forsendur við mat á slíkum óskum.  Með því að færa samræmt könnunarpróf til vorannar í 9. bekk fá foreldrar, nemendur og skólar viðbótarupplýsingar til að meta hvort viðkomandi nemandi búi yfir nægilegri hæfni og geti því innritast í framhaldsskóla.
Lesa meira

Siljan - myndbandakeppni

Barnabókasetur stendur fyrir myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-10. bekk grunnskóla. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Markmiðið er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Með því að gera lestur barna og unglinga sýnilegri og virkja hina ungu lesendur til jafningjafræðslu getum við fjölgað lestrarhestunum - fengið fleiri til að brokka af stað - og gert lestur að spennandi tómstundaiðju. Ekki veitir af! Nemendur geta unnið einir eða í hópi. Fjalla skal um eina barna- eða unglingabók að eigin vali í hverju myndbandi. Bókin þarf að hafa komið út á íslensku á árunum 2014-2015. Myndböndin skulu vera 2-3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á netinu (til dæmis youtube.com) og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til barnabokasetur@unak.is  Skilafrestur rennur út 20. mars.Sjá nánar á barnabokasetur.is
Lesa meira

100 daga hátíð hjá 1. bekk

Í síðustu viku hélt 1. árgangur upp á það að 100 dagar eru liðnir af skólagöngu þeirra. Þau töldu góðgæti í kramarhús 10x10 stk. eða samtals 100. Áður höfðu þau skreytt skólann og unnið með einingar, tugi og eitt hundrað á marga aðra vegu tengt skólastarfinu. Eitt af því sem þau gera allt frá fyrsta skóladegi er að telja skóladagana. Þegar 100 dagar eru liðnir er haldin hátíð þar sem þau fara um skólann syngjandi og skemmta sjálfum sér og öðrum.  Hér eru nokkrar myndir frá deginum.
Lesa meira

4. bekkur á Listasafninu

Nemendur í 4. bekk brugðu sér á sýninguna Völundarhús plastsins í Listasafninu á Akureyri. Jonna – Jónborg Sigurðardóttir tók á móti hópnum og vakti athygli hans á því að hver manneskja getur lagt sitt af mörkum í umhverfismálum s.s. með endurnýtingu og notkun fjölnota innkaupapoka.  Hér má sjá fleiri myndir úr ferðinni. 
Lesa meira

Ýmsar myndir úr list- og verkggreinum

List- og verkgreinakennarar eru duglegir að mynda afrakstur nemenda, hér er að finna fleiri myndir frá þessu skólaári.
Lesa meira

Skákmót Brekkuskóla

Brekkskælingar héldu skákdaginn hátíðlegan þann 26. janúar með því að efna til meistaramóts skólans. Mótið tókst mjög vel og tefldu 13 nemendur um meistaratitil skólans. Tefldar voru fimm umferðir og urðu úrslitin þessi: 1. Tumi Snær Sigurðsson, 8. bekk2. Gabríel Freyr Björnsson, 6. bekk 3. Brynja Karitas Thoroddsen, 4. bekk  
Lesa meira

Böll fyrir 1.-4. og 5.-7. bekk

Fimmtudaginn 4. febrúar verða böll sem 10. bekkur stendur fyrir og er liður í fjáröflun fyrir skólaferðalagið. 1. - 4. bekkur kl. 16.00-17.30. Verð 500.- kr. inn, popp og svali fylgja miða. Gengið er inn um aðalinngang. 5. - 7. bekkur kl. 18.00-20.00  Verð. -500 kr. inn, sjoppan opin. 10. bekkingar sjá um að spila skemmtilega tónlist. Gengið er inn um aðalinngang.  
Lesa meira