Vitundarvakning

Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu sem og almenningi.

Vitundarvakningin á rætur að rekja til fullgildingar íslenskra stjórnvalda, árið 2012, á samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu barna sem samþykktur var á Lanzarote árið 2007. Í kjölfarið gerðu innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti með sér samning um verksvið Vitundarvakningar. Árið 2013 var ákveðið að Vitundarvakningunni yrði falið víðtækara hlutverk og nái einnig til andlegs og líkamlegs ofbeldis gegn börnum.

Þverfaglegt samstarf ráðuneytanna helgast af því hversu víðfemt efni sáttmálans er og skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Samstarfið er einnig til þess fallið að koma í veg fyrir tvíverknað með auknu upplýsingaflæði og samráði um málaflokka sem snerta samfélagslega vernd barna.

Verkefnisstjórn Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum skipa Jóna Pálsdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti, sem jafnframt er formaður verkefnisstjórnar, María Rún Bjarnadóttir, tilnefnd af innanríkisráðuneyti og Guðríður Bolladóttir tilnefnd af velferðarráðuneyti. Kristín Jónsdóttir er verkefnastjóri og Karen Ásta Kristjánsdóttir er starfsmaður verkefnisstjórnar.

Verkefnastjóri og starfsmaður Vitundarvakningar eru staðsettir í mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti sér um vef verkefnisins og innanríkisráðuneyti heldur utan um fjármál og sér um greiðslur reikninga.

Helstu verkefni sem þegar hafa verið framkvæmd eða hafin vinna við:

Í farvatninu er að:

  • Áframhaldandi sýningar á brúðleikritinu Krakkarnir hverfinu, fyrir nemendur í 2. bekk grunnskóla, á haustönn  2014.
  • Stuttmyndin Stattu með þér sýnd í öllum grunnskólum landsins, á haustönn 2014.
  • Þrjú fræðslumyndbönd um réttarvörslukerfið, fyrir brotaþola og aðstandendur þeirra.
  • Útgáfa fræðsluefnis um málsmeðferð réttarkerfisins og réttarvernd barna.
  • Námskeið fyrir starfsfólk réttarvörslukerfisins í kjölfar útgáfu fræðsluefnis.
  • Útgáfa leiðbeiningarits fyrir kennara.
  • Kortlagning á  stjórnvöldum, félagasamtökum og hópum sem tengjast vernd barna gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi.
  • Yfirlit yfir skilgreiningar og hugtök sem tengjast ofbeldi gegn börnum.