Í vikulokin hjá 3. bekk

Frá æfingu 3. bekkjar
Frá æfingu 3. bekkjar
Í þriðja bekk hefjum við alla morgna á lestrarstund. Öll börnin eru með bók í skúffunni sinni sem þau lesa í fyrstu 20 mínúturnar.  Þegar þau ljúka við bók læðast þau hljóðlega upp á bókasafn og ná sér í nýtt lesefni. Þau fylgjast vel með hvað hinir eru að lesa og oft vaknar áhugi á skemmtilegri bók sem sessunauturinn er að lesa og bókmenntaumræða skapast í kjölfarið.

Í hefðbundinni skólaviku er unnið með Byrjendalæsið í fyrstu lotunni og þá er árgangnum blandað saman og unnið á sex stöðvum fjölbreytt móðurmálsvinna.

Mikil samþætting námsgreina er í tengslum við  Byrjendalæsið og fléttast öll samfélagsfræði-, náttúrufræði- og lífsleiknivinnan auk listgreinanna inn í þá vinnu. 

Í stærðfræðinni er áherslan lögð á margföldun þessar vikurnar og því engin tilviljun að sagan um Glókoll var valin í Byrjendalæsinu og leikgerð í framhaldinu til að sýna á árshátíð.

Framsögn og leikræn tjáning textans hefur verið aðaláhersluatriðið og allir lagt fram sínar hugmyndir og kostir þeirra og gallar verið metnir og ákvarðanir teknar í kjölfarið á lýðræðisgrundvelli.

Sú vinna hefur verið skemmtileg og gefandi og elft bekkjarandann. Nú er leikritið að taka á sig lokamyndina og við bíðum full eftirvæntinga eftir að fá að sýna fólkinu okkar afraksturinn. Sýningatíma er hægt að finna á heimasíðu skólans.

Hægt er að sjá myndir frá æfingum vikunnar hér