Vorskóli

Verðandi nemendum í 1.bekk í Brekkuskóla skólaárið 2017 – 2018 stendur til boða að koma í vorskóla dagana 22. og 23. maí 2017 milli kl.14:30 og 16:00 báða dagana.  Nemendur koma í fylgd foreldra/forráðamanna og hitta verðandi kennara sína sem undirbúið hafa þessar stundir með þeim. Gengið er inn að sunnan.  Tilgangur heimsóknarinnar er að nemendur og kennarar hittist í fyrsta skipti í skólanum og geti rætt saman um það sem bíður þeirra í haust.   Leitast verður við að hafa stundina notalega þar sem kennarar lesa fyrir börnin og gefa þeim kost á að spreyta sig á einföldum verkefnum. Börnin fara einnig í leik á skólalóð.   Boðið verður upp á hressingu frá skólanum í mötuneytinu í hléi báða dagana.   Reiknað er með að foreldrar skilji börnin eftir í skólanum þennan tíma. Ef þau treysta barninu ekki til þess að vera eitt er sjálfsagt að dvelja með því þennan tíma. Foreldrar þekkja börn sín best.

Ætlast er til að nemendur verði sóttir kl.16:00 báða dagana.

Foreldrafundur verður á sal skólans seinni vorskóladaginn 23. maí kl.14:30. Þar mun fulltrúi stjórnenda fara yfir helstu upplýsingar um skólann og skólastarfið.

Sjáumst í skólanum!