Sýnum börnunum alúð og nærgætni.

Heimili og skóli - landssamtök foreldra ítreka hvatningarorð um aðgætni í garð barna og mikilvægi þess að allir þeir sem komi að börnum bregðist við erfiðum aðstæðum sem upp kunna að koma hjá hverju og einu þeirra. Þeim tilmælum er beint til sveitastjórna, skólayfirvalda og starfsmanna í frístundaþjónustu á hverjum stað að þeir sameinist um aðgerðaáætlanir og viðbrögð við aðsteðjandi vanda og kynni þeim er málið varðar hvert hægt sé að snúa sér. Það er engin ástæða til að bíða eftir því að ákveðinn fjöldi barna fái ekki að borða í skólanum vegna erfiðra aðstæðna foreldra. Það að einu barni líði illa er nóg til þess að bregðast þurfi við með markvissum hætti. Tökum saman höndum um að búa börnunum öruggt og kærleiksríkt skjól hvar sem þau eru. Veitum hverju barni og hvort öðru eftirtekt, skilning og stuðning á þessum erfiðu tímum. Með vinsemd og virðingu og von um samstarf, samstöðu og góðar undirtektir. Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra, Sjöfn Þórðardóttir formaður ,                 Björk Einisdóttir framkvæmdastjóri.