Skólaþing 2014

Myndir frá skólaþingi 2014 Þetta er í annað sinn sem Brekkuskóli stendur fyrir skólaþingi. Í janúar 2013 var umræðuefnið um þætti í nýrri aðalnámskrá. Reynsla okkar af þessu fyrirkomulagi var mjög góð og var strax ákveðið að halda annað þing að tveimur árum liðnum.

Hugmyndin.
Hugmyndin að skólaþingi kviknaði á fundi í skólaráði haustið 2012 og var kveikjan ný aðalnámskrá sem tók gildi í febrúar 2012.  Í námskránni er lögð áhersla lögð á samstarf og samvinnu þeirra sem að skólunum koma.  Þar segir:

„Starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla. Mikilvægt er að þessir hópar vinni vel saman að mótun þessa samfélags og þeirra umgengnishátta sem eiga að einkenna samskipti innan skólans og utan.  Til þess að það gangi vel þarf að ræða reglulega um áherslur og koma sér saman um meginviðmið.“ 

 Einnig segir að:
„Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti, og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð.“ Það er nánast sama hvar mann ber niður í námskránni áherslan á samstarf, samráð og samábyrgð er mikil og í kafla um hlutverk skóla kemur fram að „Starfshættir skóla skulu mótast af umburðarlyndi, og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð“
(Aðalnámskrá grunnskóla, 2012).

Starfsfólk og skólaráð skólans velti fyrir sér hvaða leið skólinn gæti farið til að uppfylla það sem þarna kemur fram. Niðurstaðan varð eins og áður segir að halda skólaþing þar sem við leiðum saman fulltrúa þeirra sem standa að skólanum. Um leið skapar skólinn vettvang til umræðu um mikilvæg málefni í skólastarfinu.

Meginmarkmið og viðfangsefni.
Meginmarkmið með skólaþingi Brekkuskóla 2014 er að efla samvinnu og skapa umræðu um tækni og netöryggi í skólasamfélagi  Brekkuskóla. Við skiptum viðfangsefninu í 5 meginþætti:

1. Netöryggi:Hvaða reglur gilda í netsamskiptum? Hvernig er fyrirmyndarhegðun á netinu?

2. Nám og tækni: Hvernig er hægt að nýta tækni til náms? Hvernig getur tæknin gert námið árangursríkara?

3. Einelti á Netinu: Hvernig birtist einelti á netinu? Hvernig komum við í veg fyrir einelti á netinu?

4. Tölvuleikir: Hvernig geta tölvuleikir verið hluti af uppbyggilegu námi? Hvernig tryggjum við að börn spili eingöngu leiki sem henta þeirra aldurshópi?

5. Tími og tækni: Geta samfélög komið sér saman um umgengnisreglur og skýr mörk á netinu? Hversu langur tími er hæfilegur fyrir börn í frjálsum leik og samskiptum á netinu?

Skólaþingið að þessu sinni er liður í Nordplus samstarfsverkefninu E- learning Using Technology in Students’ Development  Þess vegna voru fulltrúar kennara og nemenda frá samstarfslöndunum, Noregi og Lettlandi með okkur. Þau voru boðin sérstaklega velkomin.


Undirbúningur.
1. Teymi kennara undirbýr meginþætti og spurnigar þeim tengdum sem leita verður svara við. Spurningarnar eru kynntar í skólasamfélaginu, í fréttabréfi, á vef skólans, í netpósti og á starfsmannafundum.

2. Umsjónarkennarar allra árganga undirbúa sína nemendur með því að skapa aðstæður til að ræða viðfangsefnið innan árgangsins í smærri eða stærri hópum, allt eftir því hvað hentar hverjum aldurshópi. 

3. Fulltrúar árganga eru valdir með lýðræðislegum hætti að loknum umræðum um málefnin í árgöngum. Upplýsingum um þingfulltrúa hvers árgangs er skilað til undirbúningsteymis.

Á skólaþingi 2014 voru nemendur úr 6. - 10. bekk þingfulltrúar, en það er ákveðið eftir viðfangsefni hverju sinni. Árið 2013 voru til að mynda fulltrúar úr 3. - 10. bekk. Skriflegum niðurstöðum frá þeim árgöngum sem ekki sitja þingið er komið á framfæri til undirbúningsteymis sem kemur þeim til hópstjóra og í úrvinnslu á niðurstöðum. Hægt er einnig að velja úr spurningar til að vinna með í yngri árgöngum og sveigja þær að þeim aldri sem unnið er með hverju sinni.

4. Undirbúningsteymið kallar eftir sjálfboðaliðum til að vera hópstjórar (ráðherrar) á þinginu.

5. Teymið kallar eftir þingforseta sem heldur undirbúningsfund með hópstjórum og leggur fyrir þá línurnar. Skólaþing Brekkuskóla hefur verið stuðst við Neuland hjálpargögn og aðferð við hópastjórnun. Nemendur skráðu niðurstöður í Linoit app.

6. Töflur og merkingar. Útvega þarf töflu fyrir hvern hóp. Ein spurning er skráð á renning á sín hvort hlið töflunnar. Samtals tvær spurningar fyrir hvern hóp. Hver spurning er ein umferð.

7. Uppstilling í sal. Borð og stólar samkvæmt fjölda þátttakenda. Þess skal gætt að hver hópur hafi sama lit af tússpenna og miðum. Hámarks hópastærð er 10 manns. Útvegun veitinga sem verða í boði.

Framkvæmd.
8. Þingfundur hefst. Tímasetning fyrir tvær umferðir er tveir og hálfur tími. Ekki er gert ráð fyrir sérstöku kaffihlé en þingmenn geta staðið upp þegar þeir vilja og náð sér í veitingar.

9. Hópar myndaðir og fá sér sæti. Hver hópur samanstendur af hópi nemenda úr sín hvorum árganginum, 1 fulltrúa foreldra (hið minnsta), fulltrúa nærsamfélagsins/samstarfsaðila (hið minnsta), 1 fulltrúa starfsmanna skólans (hið minnsta). Hópstjóri (ráðherra) kemur sér fyrir við töflu

10. Þingsetning. Fulltrúi skólastjórnenda setur þingið.

11. Þingforseti tekur við fundarstjórn þingsins og útskýrir dagskrá fundarins og hvernig hann fer fram.

12. Þingfulltrúar nemenda úr hverjum árgangi fylgja eftir þeim skoðunum og hugmyndum sem upp komu á fundum í árgöngum.

13. Í lok þingsins fær hver hópur 5-15 mín. til að kynna meginniðurstöður hópsins.

14. Þingslit

Samantekt og kynning.
15.  Samantekt á niðurstöðum er í höndum skólastjórnenda og teymisins.

16. Kynning á niðurstöðum getur farið fram með margvíslegum hætti. Dæmi: Fréttabréf, vefsíða, í formi veggspjalda o.fl.

Hvað segir ný aðalnámskrá grunnskóla um UST og skólastarf?

Samfélagsbreytingar
Skólastefna Akureyrar, menntastefna stjórnvalda, aðalnámskrá grunnskóla og stjórnsýsluákvarðanir sem tengjast UST og rafrænni stjórnsýslu í skólum hafa áhrif á starfsemi grunnskólanna. Skólastjórum er ætlað að framfylgja stefnumörkun stjórnvalda í nýtingu tækninnar í skólastarfi. Leiðin að markmiðum getur verið kostnaðarsöm og á sama tíma er verið að finna leiðir í kerfinu til að hagræða í rekstri skóla. Samfélagsbreytingar snúa meðal annars að þróun í tækni og samskiptum. Þróunin hefur áhrif á störf og nám í grunnskólum og skólunum er jafnframt falin sú ábyrgð að aðstoða samfélagið við að átta sig á þessum breytingum og að takast á við nýjar aðstæður. Sú ábyrgð er lögð á kennarastéttina að greina þessar breytingar og fella starfsemi skólanna að þeim á ábyrgan hátt (Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti, 2011:12).

Námshæfni nemenda
Fyrir skólunum liggur umfangsmikið verkefni. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (2011) er kennurum falið í auknum mæli að taka mið af námshæfni nemenda. Námshæfni byggist á sjálfskilningi nemandans þar sem lærir að þekkja styrkleika sína og veikleika og verði fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Námshæfni felur einnig í sér hæfni til að afla sér þekkingar og leikni eftir margvíslegum leiðum. Til þess þurfa nemendur meðal annars að ná tökum á tæknimiðlum. Kennarar þurfa að greina sinn þátt í þeirri þjálfun undir forystu skólastjórnenda.

Inntak og skipulag náms - Námsgögn
„Námsgögn, kennsluaðferðir og vinnubrögð sem skólar kjósa að viðhafa, skipulag skólastarfsins og námsmat á allt að taka mið af skilgreindum hæfniviðmiðunum og vera þannig útfært að möguleikar nemenda á að ná þeim séu nýttir til hins ýtrasta. Til námsgagna telst allt það efni sem notað er til að ná markmiðum náms og kennslu. Námsgögn skulu vera fjölbreytt og vönduð og taka mið af nýjustu þekkingu á sviði menntunar- og kennslufræða. Sem dæmi um námsgögn má nefna prentað efni, s.s. námsbækur, þemahefti, handbækur og leiðbeiningar af ýmsu tagi, myndefni,ýmiss konar, s.s. ljósmyndir, kvikmyndir, fræðslu- og heimildamyndir, veggspjöld, hljóðefni eins og hljómdiska og stafrænar hljóðskrár, tölvuforrit, efni á Netinu, margmiðlunarefni, efni til verklegrar kennslu, útikennslu o.fl. Náttúran og menningarumhverfi skólans er einnig mikilvæg uppspretta náms og þroska“. (Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti, 2011:47).

Viðmið um námsmat
Viðmið um mat á lykilhæfni í grunnskóla eru sett fram í fimm liðum sem eru sameiginlegir öllum námssviðum. Allir hæfnisþættirnir tengjast UST í skólastarfi að einhverju leiti m.a. þegar horft er til fjölbreyttra leiða að markmiðum sem nemendur eiga að fá hjálp með og kost á samkvæmt aðalnámskrá.  Einnig er mikilvægt að kenna nemendum að umgangast ólíka miðla á ábyrgan og skynsamlegan hátt. (Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti, 2011:53).

Upplýsingamiðlun
Lögð er áhersla á það í aðalnámskrá að gagnkvæm og virk upplýsingagjöf sé viðhöfð í skólastarfinu milli heimilis og skóla. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að skólinn hafi aðgengilegar og skýrar upplýsingar um áætlanir og framkvæmd skólastarfsins. Í þessu sambandi eru samskiptaforrit og vefsíða nefnd. (Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti, 2011:70).

Tekið saman af Bergþóru Þórhallsdóttur aðstoðarskólastjóra Brekkuskóla Akureyri.