Skólabyrjun í ágúst 2009

Börn eru gleðigjafar
Börn eru gleðigjafar
Skólabyrjun skólaárið 2009 - 2010 hefst með viðtölum við nemendur og foreldra dagana 24. - 26. ágúst 2009. Boð í viðtal verður sent út að þessu sinni í rafrænu formi í netpósti um það bil viku áður. Mat til undirbúnings viðtölunum fer fram í námsumhverfinu Mentor á vefnum mentor.is þar sem foreldrar eru beðnir um að svara spurningum ásamt börnum sínum af bestu sannfæringu. Opnað verður fyrir spurningarnar (matið) 14. ágúst 2009. Foreldrar nýrra nemenda í skólanum eru beðnir um að hafa samband við ritara skólans í ágúst til að að fá sent aðgangsorð í Mentorkerfið, hafi þeir ekki þegar fengið aðgang. Vakin er athygli á að skóladagatal næsta skólaárs er komið á vefinn og einnig námsgagnalistar (innkaupalistar)til að hafa til hliðsjónar við undirbúning skólaársins.

Vakin er sérstök athygli á að námsgagnalistarnir eru einungis hafðir til viðmiðunar um það sem nemendur þurfa að hafa með sér í skólann. Við hvetjum nemendur og foreldra til að nýta hálfunnar bækur, möppur, skriffæri, liti ofl. fyrir næsta skólaár. Námsgögn er ekki nauðsynlegt að kaupa fyrr en í upphafi skólaársins.

Námsbækur fá nemendur afhentar í upphafi skólaársins. Við leggjum áherslu á að nemendur fari vel með námsbækurnar og eru margar þeirra skráðar út af bókasafni á nafni barnsins. Það gerum við til að leggja enn frekari áherslu á verðmæti bókanna sem þau fá lánaðar.

Næsta skólaár mun 4. - 7. bekkur fá til eignar skipulagsbækur sem þeir nýta til að skipuleggja eigið nám í samráði við umsjónarkennara sinn.

Leitast verður við að nemendur í 1. bekk greiði námsgagnagjald eins og undanfarin ár, en þau fá þá allt efni til náms, pappír, liti og skriffæri afhent í skólanum. Þetta hefur gefist vel í því skipulagi sem þar er unnið eftir.