Sæhestar

Skólanum barst skemmtileg gjöf frá foreldri sem var að koma frá Kína. Gjöfin er þurrkaðir sæhestar sem eru hingað komnir alla leið hingað í Brekkuskóla. Sæhestar eru að mörgu leyti mjög sérstakar lífverur. Sæhestarnir eru nú á ferðalagi milli kennara skólans þar sem nemendur munu fá að koma við og fræðast um þá. Við þökkum kærlega fyrir þessa skemmtilegu sendingu. Fræðsluefni um sæhesta hefur verið lagt fram á skólasafni skólans til skoðunar. Þegar ferðalagi sæhestanna verður lokið verða þeir settir í glerskápana við listgreinaganginn í miðju skólans. Sæhestar eru allar tegundir sjávarfiska af sérstæðri ætt sem nefnist á latínu Syngnathidae og undirættinni Hypocampinae eða sæhestaætt. Innan þessarar ættar er einnig hópur fiska sem nefnast á ensku pipefish eða pípufiskar, þeir eru mjóslegnir og langir og minna á sæhesta í útliti en eru flokkaðir í aðra undirætt sem nefnist Syngnathinae. Um 215 tegundir eru innan ættarinnarSyngnathidae. Sæhestar lifa einungis í hlýjum sjó við miðbaug. Þeir hafa einhvers konar hala sem vindur upp á sig, hringir liggja utan um líkama þeirra endilangan og hausinn á þeim minnir á hrosshöfuð. Sæhestar afla fæðu með því að sjúga upp í sig ýmis smákvikindi. Stærð hestanna er mismunandi eftir tegundum, frá 4 cm og upp í 30 cm.

Ólíkt langflestum öðrum fiskum er sundhæfni sæhesta lítil. Kjörsvæði þeirra er nálægt ströndinni þar sem þeir halda sig innan um þang og þara. Þeir nota sporðinn sem líkist frekar hala til að halda sig við þarann og þegar þeir synda eru þeir uppréttir og nota eyruggana til að koma sér áfram. Sæhestar eru einnig algengir við kóralrif sérstaklega á Indlandshafi. Á þessum hafsvæðum finnast þeir oft í rekþangi.

Margt er sérstakt við sæhestana. Karldýrið eða hængurinn ber til að mynda frjóvguðu eggin en frjóvgunin fer þannig fram að hrygnan verpir eggjum í einhvers konar sekk sem er á kvið hængsins. Hann frjóvgar þau síðan með því að dæla svilum í sekkinn. Karlinn gætir eggjana þangað til þau klekjast og litlar lirfur synda svo úr sekknum og hefja lífsbaráttu sína án verndar foreldranna. (Sótt á vísindavefinn 9. janúar 2014)

Sjá meira um sæhesta:
http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=3346
http://www.visindavefur.is/svar.asp?id=3731