Kynnir netöryggi í hringferð um landið

Í dag lagði Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi af stað í hringferð um landið í samvinnu við SAFT og er áætlað að ferðin taki um viku. Á leiðinni mun Halldór ræða netöryggi og nýsköpun á opnum fundum í skólum fyrir börn, unglinga og foreldra.  SAFT - samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak á vegum samtakanna Heimilis og skóla um örugga tækninotkun barna og unglinga. Er megintilgangur ferðarinnar sagður að hvetja til ábyrgrar hegðunar í rafrænum samskiptum og vekja fólk til umhugsunar um hvernig börn og fullorðnir geti varast ýmsar þær hættur sem fylgt geta netnotkun.            Halldór mun í ferðinni kynna svokölluð öryggisboðorð SAFT fyrir börn og foreldra en sé þeim fylgt eykst öryggi tölvunotenda á heimilinu til mikilla muna. 

Það er mín tilfinning að alltof fáir geri sér grein fyrir því hvað felst í ábyrgri netnotkun. Eldri kynslóðir þekkja ekki hvernig það er að alast upp á tímum net- og tölvutækni og eiga því erfitt með að miðla mikilvægri þekkingu til þeirra sem yngri eru. Unga kynslóðin hefur hins vegar góða tölvukunnáttu en hefur enn ekki náð að þróa með sér gagnrýna hugsun þeirra sem eldri eru. Þess vegna er mikilvægt að við tölum saman um þessa hluti, ræðum vandamálin, leitum lausna og aukum þannig öryggi og vellíðan okkar allra í umgengni við Internetið og tölvutæknina almennt. Ég vona að með mínum samræðum við fólk á hringferðinni takist mér að opna augu fólks fyrir öryggi á netinu og hjálpa því að leita uppbyggilegra leiða til að tryggja netöryggi,“ segir Halldór.

Nýtir fríið sitt í ferðina
Halldór nýtir frítíma sinn í ferðina en hann mun m.a. koma við á Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Grenivík og Ísafirði. Má þó búast  við að fleiri staðir bætist við á meðan á ferð hans stendur.  

Auk þess að ræða um netöryggi mun Halldór einnig ræða um nýsköpun og byggðamál en hann segist á hafa sterkar skoðanir á því hvernig hægt sé að  nýta tækninýjungar í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. 

„Mig langar að ræða við fólk á landsbyggðinni um þessa hluti og heyra skoðanir þess á atvinnuuppbyggingu. Ég er jafnframt með ýmsar hugmyndir í farteskinu sem ég vona einhverjir geti nýtt sér í leit að nýjum tækifærum,“ segir Halldór.