Íslandsmeistari og Akureyrarmeistari í Brekkuskóla

Nemendur Brekkuskóla gerðu það gott á sundmóti um síðustu helgi. Sundfélagið Óðinn átti 18 keppendur á Íslandsmóti Sundsambands Íslands í Laugardalnum.

Hæst bar árangur Bryndísar Rún Hansen sem varð Íslandsmeistari í 50 m flugsundi, enda er hún Íslandsmethafi í greininni. Þá vann hún silfur í 200 m fjórsundi og synti til úrslita í 400 m fjórsundi, 50 m skriðsundi og 100 m baksundi. Bryndís tryggði sér einnig keppnisrétt á Danska meistaramótinu með unglingalandsliði Íslands sem fram fer dagana 7.-12. apríl. Bryndís tók þá ákvörðun með Vlad að fara ekki á mótið heldur einbeita sér frekar að æfingum hér heima. Hún mun fara í æfingabúðir til Reykjavíkur og synda með Ægi dagana 3.-9. apríl.

Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir vann brons í 50 m baksundi og synti til úrslita í 50 m baksundi.

Akureyrarmet
Talsverð skörð voru höggvin í Akureyrarmetaskrána. Stórtækastur í þeim efnum var Oddur Viðar Malmquist sem setti Akureyrarmet drengja í 800 og 1500 skriðsundi og 50, 100 og 200m flugsundi, þar sem það síðasttalda var tvíbætt.

Sótt af http://www.odinn.is/