Grófin heimsótti 9. bekk í Brekkuskóla í dag, 14. mars. Geðfræðsla Grófarinnar hefur verið fastur liður í skólastarfi grunnskólanna frá árinu 2015, byrjað var á að fræða starfsfólk og kennara skólanna en síðan nemendur 9. bekkja.
Mikilvægt er að ungmenni fái fræðslu um geðrænan vanda vegna þess að algengast er að slíkur vandi komi fram fyrir 25 ára aldur (Sigrún Daníelsdóttir, 2017). Í geðfræðsluteyminu eru einstaklingar sem hafa öll persónulega reynslu af geðrænum vanda og árangursríku bataferli. Þau hafa tekið þátt í faglegu undirbúningsstarfi og þjálfun fyrir fræðsluna og hafa undirgengist siðaregur Grófarinnar.
Geðfræðslan fer þannig fram að einstaklingar úr Grófinni fara í skólana, segja frá sinni persónulegu reynslu af geðrænum vanda, gefa innsýn í það hvernig þeim leið en leggja áherslu á bataferli, bjargráð og hve mikilvægt sé að bregðast við geðrænum vanda. Einnig er þátttakendum í fræðslunni bent á hvar megi leita stuðnings í umhverfinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig nafnlaust um fræðsluna og spyrja spurninga. Hugsjónin er að ungmenni átti sig á að geðrænn vandi er ekkert til að skammast sín fyrir og þau leiti sér aðstoðar þegar þess er þörf. Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að eiga samræður við börn og ungmenni um geðheilsu. (Upplýsingar af vef Grófarinnar: https://www.grofinak.is/gedfraedsla)
v/Skólastíg | 600 Akureyri kt. 410169-6229 Sími: 414-7900 Frístund sími 414-7979 Netfang: brekkuskoli@akureyri.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 414 7900 / brekkuskoli@akureyri.is