Göngum í skólann

Verkefninu Göngum í skólann verður hleypt af stokkunum í sjöunda sinn á útivistardegi Brekkuskóla, miðvikudaginn 4. september og lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október. Í Brekkuskóla fer fram sérstök skráning á því hve margir nemendur koma gangandi/hjólandi o.s.frv. í skólann vikuna 9. - 13. september. Það er gert til að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi hreyfingar og örugga umferð við skólann. Sá bekkur sem hlutfallslega kemur oftast gangandi/hjólandi o.s.frv. í skólann fær viðurkenningu. Umsjón með keppninni hafa íþróttakennarar skólans. Markmið verkefnisins eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ferðast með virkum og öruggum hætti í skólann. Á vef Samgöngustofu má lesa frétt um mikilvægi þess að kenna börnum á umferðina, en þar eru meðal annars talin upp 10 góð ráð sem mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn hafi í huga og fræði börnin sín um.

Á síðasta ári tóku milljónir barna frá yfir 40 löndum viðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi voru 63 skólar skráðir til leiks og hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt gegnum árið, en fyrsta árið voru þátttökuskólar 26. 

Göngum í skólann verkefninu standa eftirtaldir aðilar: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Samgöngustofa, Embætti Landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóli og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.