Camilo og Anna hafa samið sögu um gyðjuna Freyju og Kúbverska guði og gyðjur. Anna segir söguna og dregur börnin með frá íslensku fjöllunum, snjónum og kuldanum á vit framandi slóða. Hún notar orð, hreyfingar, dans og hluti til að segja frá. Camilo dansar bæði nútímadans og hefðbundinn Afró-Cuban dans í verkinu og túlkar á leikrænan hátt hin ýmsu hlutverk. Börnin urðu partur af sýningunni og dansa með tveimur Ellegua-guðum frá Kúbu. Að lokum flýgur þetta ólíka par sem einn fugl á vit nýrra ævintýra.
Camilo er frá Kúbu og er með mikla og góða menntun sem dansari að baki. Hann sótti virtan dans-barnaskóla 12 ára gamall, eftir að hafa dansað og numið dans á vegum dansskóla frá 8 ára aldri. Eftir það lauk hann prófi frá þekktasta dansmenntaskóla Kúbu, ENA, og hefur nú verið nemandi á dansbraut í virtasta listaháskóla á Kúbu, ISA, undanfarin tvö ár. Anna og Camilo eru einstaklega ólík og það er líka mikilvægt að sjá tvær mismunandi kynslóðir frá ólíkum menningarheimum mætast svona á sviði í dansi. Dansinn sameinar, óháð aldri, litarhætti, stíl og kyni. Anna er listakona frá Akureyri með 37 ára dansferil að baki . Hún nam í Þýskalandi á árunum 1980 til 86 og ber með sér evrópska strauma sem mæta hér kúbverskri hefð og klassík. Anna dvaldi veturlangt í fyrra með fjölskyldu sinni við nám í ISA og lagði stund á Afró-Cuban dansana. Verkið er frumraun í samstarfi þeirra.
v/Skólastíg | 600 Akureyri kt. 410169-6229 Sími: 414-7900 Frístund sími 414-7979 Netfang: brekkuskoli@akureyri.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 414 7900 / brekkuskoli@akureyri.is