Við erum á bólakafi í fjölbreyttri vinnu um land okkar og þjóð. Nú eru blessuð börnin fróðari um
þjóðarblóm Íslendinga, forsetaembættið og íslenska fánann. Við höldum ótrauð áfram og framundan eru ferðalög
um evrópulöndin og nokkur fróðleikskorn um jörðina fá að fljóta með. Undirbúningur fyrir árshátíðina hefst fyrir
alvöru í næstu viku. Við ætlum að tvinna hann saman við byrjendalæsi og samfélagsfræði.
Bekkjarfundirnir ganga vel. Börnin ykkar eru opin og hreinskilin. Yndislegt að fylgjast með hvað þau þroskast og dafna vel í skólanum
sínum.
Tilvonandi fyrsti bekkur kom í heimsókn til okkar í vikunni. Það var skondið að sjá svipinn á gúbbunum okkar þegar þau trítluðu inn í heimastofurnar. Líklegt er að sama hugsun hafi flogið í gegn hjá okkur öllum, þ.e. mikið er stutt síðan að við komum í okkar fyrstu skólaheimsókn og váááá! hvað við höfum stækkað mikið ;) Já! Þau voru svo ánægð og stolt ;) Við hlökkum mikið til þess að fá þau aftur í heimsókn og þá fá þau að taka mun meiri þátt í skólastarfinu með okkur. Allflestir hafa mælt skólastofuna í bak og fyrir í stærðfræði. Þau aðstoðuðu hvort annað að mæla hæð sína. Viddi og Bósi ljósár fylgdust grannt með og sáu til þess að þau skráðu hæð sína á miða og merktu inn á risastóran hæðarmælir. Það verður gaman að mæla hæðina aftur í vor og skoða hvað þau hafa stækkað mikið ;) Í næstu viku ætla börnin að kafa í fremur hefðbundna stærðfræði þar sem megin áhersla verður lögð á samlagningu með málbandi,talnalínu, talnagrind og kubbum. Já! Endalaus gleði framundan þar sem einkunnarorð skólans verða höfð að leiðarljósi. Við ætlum að hafa gaman saman og vera væn og græn. En svona hljómar næsta vika:
Íslenska/byrjendalæsi: Krummaljóð og þjóðsögur. Við ætlum að leggja inn síðustu bókstafina O, Ö, X. Einnig gerum við fróðleikskort um krumma og kennum börnunum skemmtileg námsspil.
Samfélagsfræði: Komdu og skoðaðu land og þjóð. Markmið: Evrópulöndin, heimsálfurnar og jörðin.
Stærðfræði: Samlagning með talnalínu, málbandi og kubbum. Aðgerðamerkin lærð; + - =
Uppbygging/bekkjarfundir: Frímínútur, framkoma og hegðun, vinátta.
Okkar bestu kveðjur og góða helgi ! Hjördís og Hólmfríður
Athugið að búið er að fresta morgunmóttökunni til 18. apríl
v/Skólastíg | 600 Akureyri kt. 410169-6229 Sími: 414-7900 Frístund sími 414-7979 Netfang: brekkuskoli@akureyri.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 414 7900 / brekkuskoli@akureyri.is