Ferð 4. bekkjar að Kiðagili

Hópvinna í desember
Hópvinna í desember
Þann 8.-10. febrúar síðastliðin dvaldi 4. bekkur  í Brekkuskóla í skólabúðum á Kiðagili í Bárðardal. Farið var í rútu frá Brekkuskóla klukkan 8:30 og ekið sem leið lá að Kiðagili í Bárðadal.

Þar var tekið vel á móti okkur. Allir komu dótinu sínu fyrir í herbergjum og síðan var farið í göngutúr að stórri hengibrú sem liggur yfir Skjálfandafljótið rétt fyrir innan Kiðagil. Guðrún, staðarhaldari á Kiðagili leiddi hópinn og sagði frá ýmsu áhugaverðu um Bárðardal. Mikla kátínu vakti að brúin hreyfðist þegar árgangurinn hoppaði á henni. Siðan var haldið í hádegismat til Magnúsar á Kiðagili.

Eftir hádegi hófst vinna. Þann daginn og næstu daga fóru börnin á milli fimm stöðva þar sem þau unnu fallega hluti úr horni og beinum, tálguðu, þæfðu, máluðu á boli og saumuðu og föndruðu. Handverkið var undir góðri leiðsögn heimamanna og var mikil vinnugleði og sköpunarandi meðal barnanna. Báða morgnana var ræst snemma. Hópnum var skipt þannig að helmingurinn fór í heimsókn á sveitarbæ í nágrenninu. Þar tóku hjónin Ingvar og Begga höfðinglega á móti okkur og fengu börnin að taka virkan þátt í morgunverkunum í fjósinu og fjárhúsunum. Hinir voru heima við á Kiðagili og fengu frábæra sögustund hjá Sigurlínu, inni og úti um sögu Bárðardals, tengingu við hálendið og frásagnir af merku fólki og verum. Nú syngjum við t.d. lagið Á Sprengisandi með nýjum skilningi og krafti.

Eftir kvöldmatinn endaði dagurinn með samveru með brandarastund og leikjum, afslöppun fyrir framan sjónvarpið, lestur og spjalli.

Þegar heim var ekið eftir hádegið þann 10. febrúar renndum við heim í hlað á Ingjaldsstöðum og fengum að skoða bústofninn hjá Berglindi og Sigga. Öll nutum við þess að komast í fjós og fjárhúsið. Það voru ánægðir ferðalangar sem renndu heim að Brekkuskóla síðdegis eftir frábæra og lærdómsríka ferð.

Myndir koma síðar :)

Endilega kíkið á heimasíðu Kiðagils