Spánarfararnir

Hópurinn sem dvelur nú á Spáni
Hópurinn sem dvelur nú á Spáni
Það gengur allt ofsalega vel hjá okkur og við erum sannarlega í sjöunda himni yfir móttökum sem við fáum og veðrinu sem tekur á móti okkur. Það var víst búið að rigna vikum saman en um leið og við lentum byrjaði sólin að skína og hitastigið að hækka. Allavegana komu fréttir af veðrinu í blöðunum þ.á.m myndir af okkur á ströndinni. Við erum í skólanum núna og nemendur eru saman í mismunandi tímum og eftir hádegið er leirkeragerð. Það er virkilega vel hugsað um okkur og heimamenn kappkosta að gera okkur til hæfis og stjana við okkur. Við fórum á ströndina á laugardaginn og áttum mjög góðan dag eða eins og Bjarki B. sagði þegar við vorum að fara heim:,,það er merkilegt hvað einfaldur dagur getur verið skemmtilegur". Fjölskyldurnar komu með nesti í hádeginu og við fórum inn í skuggsælan garð þar sem dúkar og teppi voru lögð á jörðina og svo voru dregin upp alls kyns matar- og drykkjarföng og raðað á dúkana. Ein fjölskyldan kom með risastóra vindsæng þar sem þau röðuðu sér á, þrjár kynslóðir, því amman var með. Okkar fólk var nú mishrifið af matnum þar sem hann samanstóð af sjávarfangi, skelfiski og öðru góðgæti sem er sannarlega sérkenni þessa staðar. Kræklingaommiletta, túnfisksbaka, kolkrabbaommiletta og sjávarrétta pitsa voru á boðstólum. Síðan sat fólk og talaði hvert í kapp við annað eins og í bíómynd eftir Almodovar.

Í gær var farið með rútu í bæ sem heitir Coruna og skoðað fiskasafn. Þar á eftir var farið á fótboltaleik milli Deportivo de la Coruna og Real Racing club. Þetta var mikil lífsreynsla, 15.000 manna leikvangur og fyrir leikinn fengum við að fara inn á völlin, setjast á varamannabekkina og hitta leikmenn Deportivo. Síðan var farið og keypt trefla og fána og fylgst með boltanum og fótboltabullunum sem hoppuðu og sungu allan leikinn sem endaði 1 - 1.

Þessi ferð var í boði bæjaryfirvalda hér í bæ sem borguðu fyrir rútuna, fengu fría miða á leikinn fyrir okkur. Fiskasafnið og hédegisverður þar var í boði banka hér í bæ. Þau voru búin að leita allra leiða til að gera dvölina ódýra fyrir okkur hér eins og við gerðum fyrir þau þegar þau voru á Akureyri. Foreldrarnir taka líka mikinn þátt í verkefninu eins og þið gerðuð heima en það var einmitt það sem skólastjórinn talaði um á Íslandi að hann ætlaði að taka til fyrirmyndar þegar hann kæmi heim.

Krakkarnir eru mikið saman í hópi á kvöldin, fara út að borða og njóta þess að sitja úti í hitanum og njóta lífsins. Matartímar hér eru aðeins öðruvísi en heima og er því farið út að borða klukkan 10 og komið heim klukkan 12. Mjög algengt er að sjá börn niður í 2ja ára hlaupandi um á torginu um miðnætti, eitthvað sem ekki þætti viðunnandi á Íslandi. Þau eru miklir vinir og var frábært að sjá þegar þau tóku á móti okkur á flugvellinum, æsingurinn og gleðin var jafn mikil og sorgin var þegar þau fóru frá Akureyrarvelli í síðasta mánuði.