Dagur barnabókarinnar

Sögu verður útvarpað fimmtudaginn 9. apríl kl. 09:10 í tilefni dagsins. Frá Upplýsingaveri: Á hverju ári standa alþjóðasamtök IBBY fyrir degi barnabókarinnar – tilefni sem er nýtt til þess að vekja athygli á bókum handa börnum og bóklestri barna.  Íslandsdeild samtakanna heldur sem fyrr upp á daginn með því að færa öllum grunnskólanemum landsins smásögu að gjöf. Í ár hefur Gunnar Helgason skrifað söguna Lakkrís – eða Glæpur og refsing sem hentar lesendum á aldrinum sex til sextán ára. Námsefnisveitan www.123skoli.is hefur útbúið  fjölbreyttan verkefnapakka með sögu Gunnars sem hentar ólíkum aldurshópum. Hægt er að sækja rafglærur, verkefni og ítarefni endurgjaldslaust á www.123skoli.is.  Sögunni verður útvarpað í flutningi höfundar á Rás 1 kl. 9:10 og tekur flutningurinn rúmar 15 mínútur. Sagan verður aðgengileg á vef RÚV strax að lestri loknum. Hægt er að haga upplestrinum á ýmsa lund – í sumum skólum er sagan lesin upphátt en í öðrum er opnað fyrir útvarpið.  Tilvalið er að flétta upplestrinum inn í aðra kennslu en margir skólar kjósa líka að safna nemendum skólans saman og lesa fyrir alla í einu.   Sagan er trúnaðarmál fram að hinum opinbera flutningsdegi. Vinsamlegast birtið hana ekki opinberlega, hvorki fyrir né eftir lestur.  Hugsjón alþjóðlegu IBBY samtakanna er sú að barnabókmenntir geti stuðlað að auknu umburðarlyndi. Fólk sem les sömu söguna á upp frá lestrinum eitthvað sameiginlegt. Með því að leyfa öllum grunnskólanemum landsins að hlusta samtímis á söguna stíga fjörutíu þúsund nemendur inn í sama heim á sama tíma.   Að lokum þökkum við ykkur fyrir samvinnuna, en án okkar góða samstarfsfólks í grunnskólunum yrði lítið úr þessu verkefni. Það væri okkur dýrmætt að fá fregnir af því hvernig verkefnið tókst í skólunum, myndir, frásagnir eða ábendingar.   Með bestu kveðju,  Arndís Þórarinsdóttir, formaður IBBY á Íslandi