Vegna COVID-19 veirunnar

Í ljósi þess að nú hefur hættustigi almannavarna verið lýst yfir vegna COVID-19 kórónaveirunnar vill Brekkuskóli árétta áherslur almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um mikilvægi þess að allir fylgi leiðbeiningum sóttvarnarlæknis. Nýjustu upplýsingar eru ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins:  www.landlaeknir.is

Heilsugæslan hvetur foreldra til að fylgjast vel með ráðleggingum frá sóttvarnalækni og tilkynningum frá almannavörnum og skólastjórnendum um viðbrögð þar sem þau kunna að breytast frá degi til dags.

Smit af völdum veirunnar berst aðallega sem snertismit og er besta smitvörnin fólgin í handþvotti, sprittun og að forðast snertingu við aðra. Heilsugæslan hvetur foreldra til að brýna mikilvægi handþvottar við börn sín og halda snertingu við aðra í lágmarki.

Einstaklingar sem finna fyrir einkennum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga eru hvattir til að hringja í síma 1700 og fá leiðbeiningar eða Heilsugæsluna 432-4600. Þeir sem verið hafa í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra hættusvæða.

Helstu einkenni eru hósti, hiti og beinverkir. Ef veikindi koma upp og grunur leikur á smiti hjá skólabarni, í fjölskyldunni eða hjá þeim sem fjölskyldan hefur umgengist þá vinsamlegast hringið í síma 1700 eða á næstu heilsugæslustöð og fáið upplýsingar um hvert skal leita ef grunur er á smiti. Ekki mæta á bráðamóttöku, læknavakt eða heilsugæslu ef grunur er um smit án þess að hringja á undan.

Foreldrum barna með skert ónæmiskerfi eða undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt af heilbrigðisyfirvöldum að ráðfæra sig við viðkomandi sérfræðing eða heimilislækni.

Foreldrar eru beðnir um að fylgjast reglulega með nýjustu upplýsingum um þau svæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Ef börn eða fjölskyldur þeirra ferðast um þau svæði, þurfa þau fara í sóttkví skv. leiðbeiningum Landlæknis.
https://www.landlaeknir.is/koronaveira/