Forritunarkennsla haustið 2012
Í Brekkuskóla er unnið þróunarverkefni sem ber yfirskriftina "Rafrænt nám í Brekkuskóla". Það gengur út á
það að þróa aðferðir til að auka fjölbreytni í kennslu með aðstoð tölvu- og upplýsingatækni.
Meginmarkmið með verkefninu er m.a.:
- að efla sjálfstæði nemenda í námi
- að auka gæði og fjölbreytni í kennsluaðferðum
- að fækka niðurfelldum kennslustundum nemenda
- að auka þekkingu og efla endurmenntun kennara á sviði upplýsinga- og samskiptatækni
- að nemendur læri að nýta tölvu- og upplýsingatækni í námi á hagnýtan hátt í einstaklingsmiðuðu
námi
- að bæta líðan og áhuga nemenda í námi
- að meta allt vinnuframlag nemenda óháð staðsetningu og taka tillit til þess í heildarskipulagi námsins
- að skipuleggja hluta náms nemenda sem rafrænt nám með aðgangi að tölvuveri og leiðbeinandi aðstoð frá kennara
Jafnhliða þróunarverkefninu vinnur skólinn í samstarfi við InfoMentor að því að nýta nýja einingu í InfoMentor sem heldur
utan um rafræna hluta námsins. Þessa dagana er verið að prófa rafrænt nám í dönsku á meðan kennarinn er erlendis að sinna
Comeniusarverkefni skólans.
Unnið er að gerð skólanámskrár í tölvu- og upplýsingatækni fyrir skólastarfið þar sem áhersla í hverjum
árgangi kemur fram. Skólinn stefnir að því að kenna forritun í auknum mæli og leggja þannig grunn að frumkvæði og
nýsköpun nemenda í stað þess að ala eingöngu upp neytendur tölvuleikja.
Nemendum gefst kostur á að skipuleggja nám sitt með aðstoð kennara og leysa verkefni með rafrænum hætti. Aðgangur að tölvuveri
skólans er lykilatriði, en auk þess geta nemendur fengið aðgang að þráðlausu neti skólans fyrir eigin tölvur, spjaldtölvur eða
snjallsíma. Verkefnum í rafræna náminu skila nemendur rafrænt í tölvupósti til kennara.
„E- learning is beginning to take off. Soon it will be just as important to schooling as airplanes are to travel“ (William D. Eggers, 2007).
Hér má finna mat tveggja nemenda eftir fyrstu tilraun okkar í rafrænu námi.
Bergþóra Þórhallsdóttir aðstoðarskólastjóri