Ráðstefna um snjalltækjanotkun í skólum

Föstudaginn 31. október standa Heimili og skóli að ráðstefnu um snjalltækjanotkun í skólum á Grand Hotel Reykjavík kl. 12.30 – 16. Samkvæmt nýjustu SAFT rannsókninni á net- og nýmiðlanotkun íslenskra barna eiga 96% nemenda í 4. – 10. bekk sinn eigin síma og eftir því sem þau eru eldri er líklegra að það sé snjallsími sem býður þeim upp á að vera nettengd allan sólarhringinn alla daga vikunnar, þar á meðal á skólatíma. Því miður hefur borið á því að nemendur hafi notað snjalltækin á óábyrgan hátt, s.s. með því að taka vandræðalegar myndir eða myndbönd af kennurum eða samnemendum án leyfis og dreift þeim um netið. Þau fá mis mikla leiðsögn heima fyrir um hvernig umgangast beri netið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt auk þess sem samstaða hefur ekki skapast innan skólasamfélagsins hvernig beri að umgangast tæknina – hvaða reglur eigi að gilda og hvort æskilegt sé að virkja tæknina í námi.

Markhópur ráðstefnunnar er fjölbreyttur en leitast verður við að fá aðila skólasamfélagsins á ráðstefnuna og ræða saman: skólastjórnendur, kennara, starfsfólk skóla, foreldra og nemendur. Mælendaskrá inniheldur fólk sem hefur reynslu af snjalltækjakennslu, skólaþróun og þekkingu á persónuverndarlögum. Vonir skipuleggenda standa til þess að niðurstöður ráðstefnunnar verði hægt að nota sem viðmið að skynsamlegri og sanngjarnri stefnu um snjalltæki í skólum.