Alþingi á Þingvöllum var lagt niður um 1800 en endurreist árið 1845 í Reykjavík. Það hafði að vísu ekki mikil völd en mátti gefa kónginum ráð, var kallað ráðgjafarþing. Á Þjóðfundinum árið 1851 mótmæltu íslensku þingmennirnir með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar fyrirætlunum Dana um að standa í veginum fyrir kröfum okkar um löggjafarvald og innlendan ráðherra. Lítið gekk í baráttunni næstu tuttugu árin og 1871 voru Stöðulögin alræmdu samþykkt á danska þinginu. Jón Sigurðsson, sem var okkar aðalbaráttumaður, hélt því fram að samband okkar væri við danska kónginn en ekki þingið. Við hefðum gengist kóngi á hönd og ættum því að semja við hann. Stöðulögin sögðu að Ísland væri „óaðskiljanlegur hluti Danmerkur“ sem hljómar jafn undarlega í dag og það gerði þá. Það er nefnilega úthaf og nokkur þúsund kílómetrar á milli landanna!
En árið 1874 kom Kristján konungur 9. hingað og færði okkur stjórnarskrá. Það þýddi að Alþingi gat farið að semja lög, við höfðum fengið löggjafarvaldið aftur. Þetta sumar var haldin fyrsta þjóðhátíðin hér á landi. Nú liðu mörg ár í miklu þjarki. Loks var það árið 1904 að við fengum það sem kallað hefur verið heimastjórn. Þá var í fyrsta skipti skipaður íslenskur ráðherra með búsetu í Reykjavík. Hann hét Hannes Hafstein og var líka vinsælt ljóðskáld sem ort hafði kvæði í anda rómantíkurinnar. Það var stór dagur 1. febrúar árið 1904 þegar heimastjórnin tók til starfa. Eftir rúma tvo mánuði verða liðin 100 ár frá þeim mikla atburði.
1. desember árið 1918 tóku sambandslögin gildi. Samkvæmt þeim varð þjóðin fullvalda, eins og það var kallað, en áfram í konungssambandi við Dani, þ.e. við höfðum áfram sama kóng. Einnig skyldu Danir sjá um utanríkismál okkar og landhelgisgæslu. Það var nú töluvert minna mál en í dag enda náði landhelgin aðeins þrjár mílur út frá landi en er nú 200 mílur. Langt fram eftir 20. öldinni var 1. desember mikill hátíðisdagur og framan af hálfgerð þjóðhátíð á vetri. Þegar lýðveldið var stofnað kom það til tals að sá dagur yrði þjóðhátíðardagur okkar, svo stór var hann í huga þjóðarinnar. En niðurstaðan varð sú að velja afmælisdag Jóns Sigurðssonar 17. júní. Til skamms tíma var fullveldisdagurinn frídagur í skólum landsins og stúdentar Háskóla Íslands halda enn veglega upp á daginn. 1. desember er einn af opinberum fánadögum okkar Íslendinga.
Þetta ár 1918 er annars eftirminnilegt fyrir fleira en fullveldið og fæst af því gott. Veturinn 1917-1918 var sá kaldasti í manna minnum og hefur gengið undir nafninu frostaveturinn mikli. Kötlugos hófst 12. október. Fylgdi því jökulhlaup yfir Mýrdalssand. Eyddi gosið bæjum á Suðurlandi og aska fór illa með tún og haga. Einnig féll búfénaður víða í hlaupinu. Loks gekk spánska veikin um landið þennan vetur. Var það skæð inflúensa sem lagði mörg hundruð manns í gröfina, aðallega í Reykjavík og nágrenni. Er þess getið í blöðum þessa tíma að fullveldinu 1. desember hafi verið fagnað hljóðlátlega í skugga þeirra hamfara er fylgdu spönsku veikinni.
Af www.nams.is
v/Skólastíg | 600 Akureyri kt. 410169-6229 Sími: 414-7900 Frístund sími 414-7979 Netfang: brekkuskoli@akureyri.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 414 7900 / brekkuskoli@akureyri.is