Miðvikudaginn 20. apríl var haldin upplestrarhátíð á sal Brekkuskóla. Nemendur í 4. bekk fögnuðu því að hafa tekið þátt í Litlu upplestrarkeppninni sem hófst formlega á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2015. Nemendur hafa verið duglegir að æfa upplestur í allan vetur og fengu viðurkenningarskjal því til staðfestingar.
Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa að betri árangri, ekki að keppa við bekkjarfélagana heldur sjálfan sig og stefna stöðugt að því að bæta framsögn og upplestur, að flytja móðurmálið sjálfum sér og öðrum til ánægju.