Vegleg bókagjöf til skólans

Í haust barst skólanum vegleg bókagjöf frá  Brynhildi Þórarinsdóttur rithöfundi en hún gaf skólanum 30 eintök af bókinni „Ungfrú fótbolti“.   Á bókmenntavef Borgarbókasafnsins má lesa umsögn um bókina sem segir m.a.:

Bókin Ungfrú fótbolti er auðlesin en skilur mikið eftir sig. Bygging bókarinnar er úthugsuð; það eiga sér stað spennandi atvik út alla bókina. Þetta er ekki aðeins unglingabók, heldur einnig fjölskyldubók. Foreldrar ættu að hafa gaman af því að lesa söguna með unglingunum sínum. Sagan er góð kveikja að umræðu um jafnrétti kynjanna, einkum hvað varðar kynjahlutverk og staðalímyndir. Breytingar eiga sér ekki stað af sjálfu sér. Það er gott að staldra við og skoða hvert við erum komin og velta fyrir sér hvert við viljum stefna. Einnig gæti verið gaman fyrir lesendur að ræða um það hvernig það er að vera unglingur: Hvernig var það þá og hvernig er það nú? Ungum lesendum á ef til vill eftir að koma spánskt fyrir sjónir að það hafi ekki verið sjónvarp í júlí, að einu sinni hafi íslenskir peningar verið með tveimur núllum meira en í dag og að krakkar hafi verið í skólanum annað hvort fyrir eða eftir hádegi, fengið berklaplástra og drukkið kók með lakkrísröri. Bókin er marglaga, líkt og sögupersónurnar, en um leið létt og skemmtileg og varpar ljósi á hið skondna í hversdagsleikanum.

Skólinn þakkar Brynhildi fyrir góða gjöf og vonast til að bókin verði mörgum að góðu gagni í framtíðinni.