Hjól og rafhlaupahjól

Nú er tími reiðhjóla og annarra léttra ökutækja kominn og  brýnum við fyrir fólki að fara að öllu með gát og huga að öryggi barnanna.

Öll börn þurfa að hafa hjálm og hann verður að passa barninu og sitja rétt á höfðinu. 

Barn yngra en 9 ára má ekki hjóla á akbraut nema undir leiðsögn og eftirliti manns sem náð hefur 15 ára aldri. Börn yngri en 9 ára mega því ekki fara ein síns liðs um gatnakerfið ef þau þurfa að vera á akbrautum. Hjóli börn yngri en 9 ára á milli staða, verða þau að komast leiðar sinnar eftir gangstígum, gangstéttum og gangbrautum. Akbrautir eru bannsvæði, nema undir eftirliti þeirra eldri. Leiðbeinum þeim yngstu og sýnum ábyrgð.

Vélknúin hlaupahjól (oft kölluð rafhlaupahjól, rafmagnshlaupahjól, rafskútur) tilheyra flokki reiðhjóla og eru hönnuð til aksturs á hraða frá 6 km á klst. upp í 25 km á klst. Í umferðarlögum kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól t.d. hvað varðar öryggisbúnað og mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á gangstígum.

Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Auk þess eru rafhlaupahjólaleigur yfirleitt með aldurstakmark á notkun hjólanna.

Athugið sérstaklega að börn og ungmenni undir 16 ára aldri eiga skv. lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar en mælt er með að allir noti hjálm á rafhlaupahjóli öryggisins vegna.  Hér er slóð inn á myndband með upplýsingum um notkun rafhlaupahjóla. 

https://www.youtube.com/watch?v=2dAK5MKM3As&list=PL3prAqz9YEX4yyfaxFCn0vy65LFI05wEU&index=2&t=3s