Brekkuskóli tekur þátt í Erasmus + verkefni.

Brekkuskóli er einn af sex skólum, frá jafnmörgum löndum, sem eru að hefja vinnu við þriggja ára samstarfsverkefni sem styrkt er af „The Erasmus + School Partnership“ (áður Comenius) og er fjármagnað af Evrópusambandinu. Dagana 13. til 16. október hittust þrettán kennarar frá samstarfslöndunum, Ítalíu, Danmörku, Wales, Spáni, Íslandi og Þýskalandi í Blücherskólanum í Wiesbaden í Þýskalandi. Af hálfu Brekkuskóla sátu Helga Sigurðardóttir og Sigríður Margrét Hlöðversdóttir fundinn. Verkefnið hefur hlotið nafnið Learn, Create and Communicate – Lærum, sköpum og spjöllum og byggir, eins og nafnið bendir til á því að nemendur læra um þjóðir og menningu samstafslandanna, skapandi hugsun og vinnubrögð og þjálfast í að hafa samskipti sín á milli í gegnum nútíma margmiðlun.

 

Á fundinum skiptust þátttakendur á veggspjöldum sem nemendur höfðu útbúið.Þar kynntu þeir annarsvegar land sitt og hinsvegar söfnuðu þar saman sínum hugmyndum um hin samstarfslöndin.Verkefnisstjórn er í höndum Elisa Haaparanta frá Danmörku, en hver skóli skipar auk þess sinn ábyrgðarmann.