Alþjóðadagur móðurmálsins

Leikur og fróðleikur. Í tilefni af alþjóðadegi móðurmálsins verður efnt til nokkurra viðburða dagana 21.–28. febrúar nk. í því skyni að minna á réttinn til móðurmálsins og vekja leika og lærða til vitundar um mikilvægi móðurmáls fyrir einstaklinga og menningu þjóða. Að dagskránni standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Unesco-nefndin á Íslandi í samvinnu við fjölmörg samtök, stofnanir og aðra sem láta sig málið varða.

Við hvetjum alla til að taka þátt í viðburðum í viku móðurmálsins. Sérstaklega er starfsfólk í skólum landsins hvatt til að vekja athygli nemenda á þessu mikilvæga málefni og stuðla að jákvæðri umræðu um ólík móðurmál í skólum.

Tungumálaforða Íslands leitað: www.tungumalatorg.is

Íslenska er móðurmál flestra sem búa á Íslandi en alls ekki allra. Margir eru tví- eða fjöltyngdir. Öll móðurmál og önnur mál sem töluð eru á Íslandi og erlend tungumál sem við lærum í skólum mynda saman tungumálaforða Íslands. Hann er okkur dýrmætur. Ríkulegur tungumálaforði endurspeglar fjölbreytta menningu og er lykill að farsælum samskiptum við umheiminn.

Í tilefni alþjóðadags móðurmálsins, 21. febrúar, verður hrint af stað leik sem gengur út á að leita uppi þau móðurmál sem eru töluð í skólum víðs vegar um landið og kanna hve miklum tungumálaforða skólar búa yfir. Á heimasvæðinu www.tungumalatorg.is/ eru nemendur einstakra bekkja og skóla hvattir til að skrá öll móðurmál sín. Þannig fást upplýsingar um tungumálaforða hvers skóla og með því er hægt að fá yfirlit yfir tungumálaforðann á einstökum landsvæðum og á landinu í heild. Þeir skólar sem búa yfir miklum tungumálaforða fá sérstaka viðurkenningu.

Sögustund fyrir börn á 10 tungumálum

Föstudaginn  21. febrúar, kl. 13.-15 stendur Borgarbókasafn, Gerðubergi fyrir sögustund fyrir börn á 10 ólíkum tungumálum.

Myndbönd um móðurmál og menningarlega fjölbreytni

Tekin hafa verið upp nokkur stutt myndbönd um mikilvægi móðurmálsins og stöðu ólíkra tungumála sem móðurmáls hér á landi. Myndböndin er hægt að nálgast á www.vigdis.hi.is.

Fyrirlesturinn: Danska sem móðurmál, annað mál og erlent mál

Fimmtudaginn 27. febrúar, kl. 16.00 flytur doktor Bergþóra Kristjánsdóttir, lektor við Árósaháskóla, fyrirlestur um stöðu mismunandi tungumála sem móðurmáls í Danmörku. Fyrirlesturinn fer fram í Háskóla Íslands, í stofu 101 í Odda.

Málþingið: Móðurmál - mál málanna

Föstudaginn 28. febrúar kl. 15–18 verður haldið málþing í Norræna húsinu þar sem fjallað verður um móðurmálið út frá ólíkum sjónarhornum, sjá dagskrá:http://vigdis.hi.is/node/1025/.

 Með bestu kveðjum,

  Jón Torfi Jónasson,  Auður Hauksdóttir