Aðalfundur foreldrafélagsins

Í kvöld – Fjölmennum! 1.    október  kl. 20 - Aðalfundur-vöfflur-fræðsla Kæru foreldrar Við viljum minna á aðalfund foreldrafélagsins næstkomandi miðvikudagskvöld 1. október í hátíðarsal Brekkuskóla klukkan 20. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa munum við fá stutta kynningu skólastjórnenda á stefnu skólans og reynslu af tölvunotkun við nám og kennslu. Að kynningunni lokinni mun Helga Halldórsdóttir, deildarstjóri í Glerárskóla flytja fyrirlestur um samskipti stúlkna en erindi hennar byggir á starfendarannsókn hennar þar sem unnið var með hóp stúlkna í einum grunnskóla í samstarfi við skólastjórnendur, umsjónarkennara og foreldra Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að öðlast dýpri skilning á einelti meðal stúlkna og erfiðum samskiptum þeirra og hins vegar að þróa leiðir sem nýst geta þegar unnið er með samskiptaerfiðleika. Foreldrar drengja eiga ekki síður erindi á fundinn en foreldrar stúlkna þar sem Helga ræðir einnig um samskipti drengja.


Í Brekkuskóla starfar mjög öflugur foreldrahópur sem er annt um velferð og nám nemenda í skólanum. Mæting á aðalfundi foreldrafélagsins er nánast skylda og viljum við ítreka að ætlast er til að öll heimili sendi frá sér einn fulltrúa á fundinn. Við viljum að sjálfsögðu láta það fréttast að foreldrar í Brekkuskóla séu ekki eftirbátar foreldra í Naustaskóla sem settu mætingarmet á aðalfundi sínum í september.

Stjórn foreldrafélagsins hefur verið mönnuð þannig að ekki verður sérstaklega leitað eftir nýjum fulltrúum á aðalfundinum en vel er tekið á móti öllum þeim sem hafa samband við stjórnina og vilja taka þátt í starfinu í vetur. 


Stjórn foreldrafélagsins mun styrkja ferð nemenda í 7. bekk í Reykjaskóla í vetur með kaupum á þjónustu þeirra á aðalfundinum en nemendur munu framreiða ljúffengar vöfflur og kaffi. 


Hlökkum til að sjá ykkur 
Stjórnin