Upplýsinga- og samskiptatækni verður sífellt meira áberandi í umræðunni um skólamál. Hér í Brekkuskóla gerðum
við þarfagreiningu meðal kennara á þeim búnaði sem þeir óska eftir að geta nýtt í kennslu sem tekið var mið af við
búnaðakaup fyrir nemendur.
Þessa dagana er verið að setja upp nýtt tölvuver, nánar tiltekið í stofu 203. Tölvuverinu er ætlað að þjóna betur eldri
nemendum skólans, en ásókn í tölvuverið við bókasafnið hefur ekki annað eftirspurn kennara í faggreinakennslu þar sem
faggreinarnar eru fastar á stundaskrá og sveigjanleiki þar af leiðandi minni til að nýta þá fáu lausu tíma sem í boði
eru.
Eldra tölvuverið, sem er við bókasafnið, mun þjóna yngri nemendum og eru kennarar hvattir til að nýta sér það aukna svigrúm sem
þar er að myndast.
Fjórar spjaldtölvur eru staðsettar á bókasafninu sem kennarar geta fengið afnot af fyrir nemendur sína og til að nýta sjálfir við að
kynna sér möguleikana sem þessi nýja tækni bíður upp á.
Ein öflug Mac-tölva er staðsett á bókasafni sem ætluð er meira fyrir kennslu í mynd- og hljóðvinnslu ýmis konar. Tölvan er á
hjólaborði sem gerir okkur kleift að nýta hana um allan skólann eftir viðfangsefnum nemenda hverju sinni.
Ný myndavél var einnig keypt sem getur tekið skarpari myndir á sal, en litlu vélarnar náðu ekki góðum myndum þar. Einnig er vélin
notuð til að taka myndir fyrir Mentorkerfið og fleiri viðburði í skólastarfinu eins og litlu vélarnar hafa verið að gera. Kennarar hafa aðgang
að vélinni eftir þörfum, en hún er staðsett hjá aðstoðarskólastjóra.
Fjórir skjávarpar voru keyptir til viðbótar við þá sem fyrir eru í skólanum og eru nú skjávarpar í nær öllum
kennslustofum skólans. Það færist sífellt í aukana að kennarar noti skjávarpa og tölvu við kennsluna sem óneitanlega gefur
fjölbreyttari möguleika í skólastarfinu.